Fjáraukalög 2001

Miðvikudaginn 05. desember 2001, kl. 14:21:41 (2507)

2001-12-05 14:21:41# 127. lþ. 43.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, JB (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 127. lþ.

[14:21]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Sveitarfélagið Skagafjörður á í miklum fjárhagsvanda eins og mörg önnur sveitarfélög á landsbyggðinni. Þennan greiðsluvanda sveitarfélaganna á að leysa með aðgerðum á landsvísu, heildstætt.

Sveitarfélögin á suðvesturhorni landsins, þangað sem góðærið kom, keppast nú við að efla orkufyrirtæki sín og nýta styrk þeirra til sóknar í nýsköpun atvinnulífs. Á meðan sjá sveitarfélögin á landsbyggðinni hvert á fætur öðru sér ekki fært annað en selja þessi fjöregg sín til að létta til bráðabirgða á greiðsluvandanum. Lagt er til að ríkið komi að því að leysa fjárhagsvanda sveitarfélagsins Skagafjarðar sem hluta af heildarlausn á landsvísu en ekki með því að afhenda Rarik peninga til að kaupa af þeim rafveituna og rýra þar með möguleika Skagfirðinga til að sækja fram á eigin forsendum í orkubúskap.