Úthlutun ærgilda til svæða sem eru háð sauðfjárrækt

Miðvikudaginn 05. desember 2001, kl. 14:39:33 (2518)

2001-12-05 14:39:33# 127. lþ. 44.1 fundur 243. mál: #A úthlutun ærgilda til svæða sem eru háð sauðfjárrækt# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 127. lþ.

[14:39]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Á sínum tíma þegar nýr búvörusamningur, sauðfjársamningur var gerður var eitt meginefni hans að ríkisvaldið keypti upp allmörg ærgildi í því skyni að skapa betra svigrúm til rekstrar fyrir þá sem eftir stæðu. Við vitum að uppkaupin voru talsvert mikil strax á fyrsta árinu, raunar meiri en menn bjuggust við í upphafi þó að ekki hafi alveg að öllu leyti tekist að kaupa upp í það magn á þessu hausti sem dygði til þess að opna á hið frjálsa framsal.

Í umræðum sem fram fóru þegar verið var að festa í lög sem leiddu af þessum sauðfjársamningi, umræðum sem fram fóru á Alþingi 9. maí í fyrra, sagði hv. þáv. formaður landbn., hv. þm. Hjálmar Jónsson svo, með leyfi virðulegs forseta:

,,Því er það að á tilteknu stigi í samningagerðinni var vilyrði gefið fyrir sérstökum stuðningi við sauðfjárrækt í þeim byggðum sem mest eiga undir sauðfjárræktinni. Ríkisstjórnin hefur fjallað um það og ég vænti þess að hæstv. landbrh. geri grein fyrir þeim sérstaka stuðningi sem reiknað er með að Byggðastofnun setji reglur um hvað úthlutun varðar.``

Virðulegi forseti. Hæstv. landbrh. útskýrði málið frekar í umræðunni og sagði, með leyfi hæstv. forseta:

,,En ríkisstjórnin er sammála, í tengslum við nýjan samning um framleiðslu sauðfjárafurða, um að lýsa yfir vilja sínum til að úthluta 7.500 ærgildum til þeirra svæða sem sérstaklega eru háð sauðfjárrækt og möguleikar á annarri tekjuöflun eru takmarkaðir.``

Síðan sagði hæstv. ráðherra að Byggðastofnun yrði falið að skilgreina svæðin og undirbúa reglur til viðmiðunar við úthlutun. Þetta var á vordögum árið 2000.

Því hef ég leyft mér, virðulegi forseti, að spyrja hæstv. landbrh. nokkuð frekar út í þetta mál og stöðu þess með eftirfarandi spurningum:

1. Hvað líður efndum á fyrirheitum um að úthluta 7.500 ærgildum til þeirra svæða sem eru sérstaklega háð sauðfjárrækt og möguleikar á annarri tekjuöflun eru takmarkaðir?

2. Er ætlunin að um verði að ræða árlegar greiðslur út gildistíma núverandi samnings um framleiðslu sauðfjárafurða?

3. Hafa þau svæði verið skilgreind sem uppfylla skilyrði skv. 1. lið?

4. Liggja fyrir úthlutunarreglur sem greitt verður eftir á viðkomandi svæðum?