Úthlutun ærgilda til svæða sem eru háð sauðfjárrækt

Miðvikudaginn 05. desember 2001, kl. 14:42:18 (2519)

2001-12-05 14:42:18# 127. lþ. 44.1 fundur 243. mál: #A úthlutun ærgilda til svæða sem eru háð sauðfjárrækt# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 127. lþ.

[14:42]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Við umræður á Alþingi um gerð nýs búvörusamnings um framleiðslu sauðfjárafurða og breytingu laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, var m.a. fjallað um leiðir til að styrkja þau svæði sem sérstaklega eru háð sauðfjárrækt. Ríkisstjórnin ákvað að veita fjármuni sem svara til beingreiðslna á 7.500 ærgildum, eins og hér kom fram í ræðu hv. þm., til að styrkja svæði sem eru sérstaklega háð sauðfjárrækt og hefðu takmarkaða möguleika til annarrar tekjuöflunar. Gert var ráð fyrir að þessi stuðningur kæmi til framkvæmda í framhaldi af uppkaupum ríkissjóðs á 45 þúsund ærgildum sauðfjár.

Fyrir liggur eins og fram kom að uppkaupin ganga ekki upp á þessu hausti. Á fyrsta ári voru keypt upp 35 þúsund ærgildi, talið er að í haust verði það 7--8 þúsund ærgildi, en sala á milli manna á þeim rétti hefst eigi að síður í síðasta lagi 1. janúar 2004. Þetta mál er því í þeim farvegi.

Svar við annarri spurningu er: Framkvæmdanefnd búvörusamninga sem annast framkvæmd samningsins um framleiðslu sauðfjárafurða frá 11. mars 2000, hefur lagt til að gerður verði viðauki við samninginn þar sem tekið verður fram að um verði að ræða árlegar greiðslur út gildistíma samningsins er svarar til beingreiðslna á 4.500 ærgildisafurðum. Framkvæmdanefnd búvörusamningsins hefur sent erindi til Byggðastofnunar um að stofnunin skilgreini þau svæði sem falla undir það að vera háð sauðfjárrækt og eiga takmarkaða möguleika til annarrar tekjuöflunar. Er það í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar og þá umræðu sem fram fór á Alþingi við breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, sem var nauðsynleg til staðfestingar samningnum.

Síðan er þriðja spurningin: ,,Hafa þau svæði verið skilgreind sem uppfylla skilyrði skv. 1. lið?`` Svarið við því er nei.

Fjórða spurningin: ,,Liggja fyrir úthlutunarreglur sem greitt verður eftir á viðkomandi svæðum?`` Svarið er: Framkvæmdanefnd búvörusamninga mun að fengnum tillögum Byggðastofnunar um þau svæði sem framkvæmdanefnd nær til gera tillögur um úthlutunarreglur er farið verður eftir. Svona stendur þetta mál um þessar mundir.