Úthlutun ærgilda til svæða sem eru háð sauðfjárrækt

Miðvikudaginn 05. desember 2001, kl. 14:47:20 (2522)

2001-12-05 14:47:20# 127. lþ. 44.1 fundur 243. mál: #A úthlutun ærgilda til svæða sem eru háð sauðfjárrækt# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 127. lþ.

[14:47]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka þeim sem hér hafa talað við umræðuna og hæstv. landbrh. fyrir svörin. Ég neita því ekki að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum. Ég hafði satt að segja, virðulegi forseti, búist við því að málið væri komið lengra einfaldlega vegna þess að strax á fyrsta ári tókst þannig til að það urðu eiginlega meiri uppkaup en flesta hafði grunað á þessum sauðfjárræktarheimildum. Þess vegna bjóst ég satt að segja við því, virðulegi forseti, að málið væri komið í þann farveg að menn væru farnir að huga af mikilli alvöru að þeim reglum, einfaldlega vegna þess að tíminn líður og við vitum að staða sauðfjárræktarinnar hefur verið mjög alvarleg og staðan er auðvitað sérstaklega alvarleg á þeim svæðum þar sem menn eru háðastir sauðfjárrækt og hafa ekki aðra tekjumöguleika eins og er forsendan fyrir úthlutun að þessu leyti.

Nú geri ég mér grein fyrir því að menn voru að tala um að þetta ætti að gerast í framhaldi af uppkaupunum. En eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra er nú þegar búið að kaupa 42--43 þúsund ærgildi upp af þeim 45 þúsund sem stefnt var að, þannig að þarna er náttúrlega bitamunur en ekki fjár. Ég hefði talið það, virðulegi forseti, í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru séstaklega á þessum svæðum og vegna stöðu sauðfjárræktarinnar sem við vitum að hefur verið mjög alvarleg. Tekjumyndunin hefur verið lítil, tekjur sauðfjárbænda eru þær lökustu í landinu og ég hefði talið að eðlilegt hefði verið að málið væri komið lengra þannig að menn gætu farið að njóta afrakstursins ef það hefði verið hægt af slíkum heimildum.

En ég þakka engu að síður svörin og fagna því að þetta mál er þó komið í þennan farveg. Ég tel að þetta sé eðlilega gert að því leyti að þarna kom að máli framkvæmdanefnd búvörusamningsins og Byggðastofnun og ég treysti því að málinu verði hraðað þannig að við getum farið að sjá framan í þær reglur og bændur geti farið að átta sig á því nákvæmlega hvernig farið verður með málið í framtíðinni.