Úthlutun ærgilda til svæða sem eru háð sauðfjárrækt

Miðvikudaginn 05. desember 2001, kl. 14:51:29 (2524)

2001-12-05 14:51:29# 127. lþ. 44.1 fundur 243. mál: #A úthlutun ærgilda til svæða sem eru háð sauðfjárrækt# fsp. (til munnl.) frá landbrh., SJS (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 127. lþ.

[14:51]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég á ekki annan kost en þann að biðja um orðið til að bera af mér sakir þegar hæstv. landbrh., sem því miður er ekkert einsdæmi, notar sér það að vera síðasti ræðumaður í umræðu um fyrirspurn og notar nánast allan ræðutíma sinn ekki í að svara betur fyrirspurninni sem hann fékk eða bregðast við athugasemdum þingmanna um það mál sem var til umræðu, heldur ræðst á mig vegna starfa minna sem fyrrv. ráðherra fyrir meira en tíu árum, sem er mál sem ekki er á dagskrá hér, og ég hef enga aðstöðu samkvæmt þingsköpum til að bera hönd fyrir höfuð mér aðra en þá að biðja um orðið til að bera af mér sakir og auðvitað ber ég af mér þær sakir að sá búvörusamningur sem ég gerði á sínum tíma og var studdur af stjórnarflokkum þáv. ríkisstjórnar, þar á meðal flokki hæstv. núv. landbrh., Framsfl., og einn af þeim mönnum sem lagði hvað mest fram til þess að sá samningur komst á fyrir utan þann sem hér stendur var einmitt formaður þess flokks, Steingrímur Hermannsson, sem skal eiga það sem hann á og þar á meðal það að hann studdi vel við bakið á þeim ráðherrum sínum sem voru í erfiðum verkefnum á hverjum tíma, meira en kannski mætti segja um suma aðra.

Ég tel að sá samningur hafi verið góður og farsæll miðað við þær ákaflega erfiðu aðstæður sem íslenskur landbúnaður var í um þær mundir. (Landbrh.: Spurðu bændurna.) Ég skal alveg eiga orðastað við núv. hæstv. landbrh. um þá tíma þegar betur stendur á, herra forseti, og fara yfir það og hvernig m.a. ráðsmennska Framsfl. í landbrn. undangengin ár og áratugi skildi við íslenskan landbúnað svoleiðis gersamlega á hnjánum að hann hefur auðvitað aldrei í annan tíma verið verr staddur, hvorki efnislega né pólitískt en hann var einmitt þarna um 1990, með gersamlega gjaldþrota kerfi á herðunum sem enginn pólitískur stuðningur var lengur fyrir. Árlegar reddingar með auknum útflutningsuppbótum (Landbrh.: Er þetta að bera af sér sakir?) o.s.frv., herra forseti, þannig að ég vísa þessu öllu saman til föðurhúsanna. (Gripið fram í.) Og það er heldur dapurlegt þegar maður leyfir sér að gera athugasemdir við að hægt hafi gengið að koma hlutum fram í landbrn., sem var allt og sumt sem ég gerði hér, að lýsa óánægju minni með óskýr svör ráðherra um hvenær staðið yrði við þessi fyrirheit og að mér þætti hafa tekið langan tíma að skilgreina þessi svæði og móta reglur um hvernig þetta yrði greitt út. Sama sinnis var hv. fyrirspyrjandi, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson. Er það tilefni til þess að fara að ráðast að mönnum með þeim hætti sem hæstv. ráðherra gerir hér? Ég mótmæli því, herra forseti. Og ég bendi virðulegum forsetum á að það gerist æ algengara að menn noti sér það að vera síðustu menn á mælendaskrá í umræðum þegar aðrir þingmenn eru ,,dauðir`` eins og kallað er og koma ekki hönd fyrir höfuð sér, til þess að ráðast þá með frekar ómerkilegum hætti að mönnum. Það hefur aldrei þótt stórmannlegt og ég held að hæstv. landbrh. væri nær að hugsa um sinn sokk heldur en vera að kássast upp á annarra manna jússur.