Útflutningsskylda sauðfjárafurða

Miðvikudaginn 05. desember 2001, kl. 15:06:02 (2532)

2001-12-05 15:06:02# 127. lþ. 44.2 fundur 259. mál: #A útflutningsskylda sauðfjárafurða# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 127. lþ.

[15:06]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Það er svo sem lítið meira um þetta mál að segja. Það er komið í ákveðinn farveg sem verður fylgt. Það er alltaf ljóst þegar fyrirtæki fara illa á markaði, eins og þekkt er með Goða sem hefur verið fyrirtæki líklega 40--50% bænda í sauðfjárslátrun, að þá getur illa farið. Það er ábyrgðarhlutur þegar slíkt gerist og sorgarsaga og margir geta orðið fyrir miklum afföllum. Þarna skópu menn fyrirtæki sem aldrei gat siglt og ekki gengið og örlög þess eru að ráðast þessa dagana í nauðasamningum og uppgjöri. Við skulum vona að bændurnir fái sem mest af því sem þeir eiga.

Ég vil svo sem ekki ræða þetta mál hér frekar. Ég vona að ég hafi gefið þinginu þær skýringar sem mér finnst mikilvægt að upplýsa um og segja satt frá. Málið er í þessum farvegi og það verður farið með það þannig. Brot á búvörulögum er alvarlegur hlutur og þetta verður leitt til lykta á næstunni.