Greiðslumark í sauðfjárbúskap

Miðvikudaginn 05. desember 2001, kl. 15:14:53 (2536)

2001-12-05 15:14:53# 127. lþ. 44.3 fundur 260. mál: #A greiðslumark í sauðfjárbúskap# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 127. lþ.

[15:14]

Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. þessi greinargóðu svör. Ég verð að segja að nú liggur fyrir að í ársbyrjun 2004 samkvæmt ákvæðum búvörusamnings munu sauðfjárbændur geta flutt greiðslumark á milli sauðfjárbúa og þar með hafið þá hagræðingu sem þeir sjálfir sjá helst sér og sínum til farsældar og hagsældar.

Ég hafði gert mér þær vonir að það gæti orðið fyrr. En af svörunum má greina að það liggur ekki í hendi. Það er þó alveg ljóst af þessum svörum að við nálgumst greiðlega þau viðmið sem sett voru.

Hæstv. landbrh. sagði sem svo að æskilegt væri að fjötrar væru sem minnstir um starfsemi af þessu tagi. Ég verð að viðurkenna að ég tel eðlilegast að ekki sé um fjötra að ræða nema ef við köllum fjötra þau skilyrði og skilmála sem við setjum yfirleitt um gæði afurða, um hreinlæti í starfsemi sem varðar matvæli. En þá skilmála tel ég yfirleitt ekki til fjötra.

Mestu skiptir að ekkert mismuni starfsgreinum eða stéttum. Ég tel að því miður hafi svo verið um íslenskan landbúnað fram að þessu og svo sé enn um sauðfjárbúskapinn. Mjög miklu skiptir fyrir okkur ef bændur og samstarfsstéttir þeirra finna markaði sem greiða fullt verð fyrir heilnæmar landbúnaðarafurðir að þeir hafi þá frelsi til að bregðast við þörfum þeirra markaða og halda úti nægilega stórum bústofni til að geta annað þeim þörfum. Að því leyti tel ég mikilvægt að við náum sem fyrst því marki að þeir ráði sjálfir stærð búa sinna og taki sjálfir ákvarðanir um hvernig þeir haga rekstri þeirra.