Greiðslumark í sauðfjárbúskap

Miðvikudaginn 05. desember 2001, kl. 15:17:07 (2537)

2001-12-05 15:17:07# 127. lþ. 44.3 fundur 260. mál: #A greiðslumark í sauðfjárbúskap# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 127. lþ.

[15:17]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Í dag ráða bændur því hvað þeir eiga margt sauðfé. Það er frelsi um það. Sá sem hér stendur sagði einhvern tíma að það væru mannréttindi að eiga sauðkind. Bændurnir geta átt svo margt sauðfé sem þeir vilja þess vegna, en beingreiðslurnar eru bundnar við ákveðið magn. Það kynni t.d. að gerast, sem við höfum séð, að hið háa verð á Bandaríkjamarkaði skilaði sér vel heim á búin og hækkaði mjög verð. Þá hefðu menn auðvitað frelsi til þess að bregðast við því. Það eru engar hömlur gegn því að menn fjölgi þá sauðfé sínu, sinni þeim markaði og eigi hann. Hitt er auðvitað bundið við innanlandsmarkaðinn og neysluna hér þannig að að þessu leyti er þetta frjálst.

Hitt er annað mál að kvóti eða takmörkun á því sem er undirstaðan, stuðningnum, er bundinn bæði mjólk og sauðfé. Margir líta á það sem ákveðna fjötra. Menn hafa ekki fundið aðrar leiðir. En ég tek undir það að ég tel mikilvægt að þetta ákvæði, um að þessi atvinnugrein fari út í þá þróun að menn geti selt sín á milli, verði að lögum sem fyrst. Auðvitað mætti hugsa sér að taka upp samninginn og flýta fyrir þessu. Það mætti hugsa sér það til þess að hjálpa atvinnugreininni og efla hana. Því er ástæðulaust að útiloka það. Hins vegar verða bændurnir náttúrlega á öllum sviðum að bera ábyrgð á sér og sínum, búunum, slátruninni, þeim millilið, og standa síðan sterkir við að koma vörum sínum á markað. Sauðkindin hefur sem betur fer haldið markaðshlutdeild sinni hér 6--7 síðustu ár sem skiptir miklu máli fyrir bændurna og byggðina.