Tónlistarnám fatlaðra

Miðvikudaginn 05. desember 2001, kl. 15:27:52 (2540)

2001-12-05 15:27:52# 127. lþ. 44.4 fundur 310. mál: #A tónlistarnám fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., KolH
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 127. lþ.

[15:27]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Margréti Frímannsdóttur fyrir að hreyfa þessu afar þýðingarmikla máli og víkja aðeins að því hér að eins og allir vita eiga fatlaðir nemendur misauðvelt með að tileinka sér almennar námsgreinar. Hins vegar eiga þeir trúlega allir það sameiginlegt að listnám, ekki síst nám í tónlist, fleytir þeim mjög áfram í þroska. Þess vegna er það mjög mikilvægt að listnámi fatlaðra nemenda sé sérstakur gaumur gefinn.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hann skuli hafa nefnt hér Tónstofu Valgerðar sem ég þekki eilítið til. Þar er verið að vinna þvílíka kraftaverkavinnu sem er ekki annað en sanngjarnt að allir fatlaðir nemendur á Íslandi geti átt aðgang að. Svo mikil kraftaverk eiga sér stað þegar fatlaðir nemendur fá tækifæri til að öðlast þroska í gegnum tónlistarnám.