Rýmingaráætlanir

Miðvikudaginn 05. desember 2001, kl. 15:44:02 (2547)

2001-12-05 15:44:02# 127. lþ. 44.5 fundur 294. mál: #A rýmingaráætlanir# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 127. lþ.

[15:44]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svör hans og fagna þeirri yfirlýsingu að til séu rýmingaráætlanir í flestum heilbrigðisstofnunum landsins. Það fór samt sem áður eins og mig grunaði, að á öldrunardeildinni Ljósheimum á Selfossi væri ekki til formleg rýmingaráætlun. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart vegna þess að í fyrirspurn minni til hæstv. ráðherra var m.a. spurt hvernig brugðist hefði verið við þeim ábendingum sem settar voru fram af eftirlitsaðilum fyrir nokkrum árum.

Mér vitanlega hefur ekkert gerst frá því að þetta húsnæði var lýst nánast ónothæft, hvað þá að þar ætti að reka hjúkrunarheimili. Ég fullyrði að aðstaðan er hvergi á landinu verri á hjúkrunarheimilum en einmitt að Ljósheimum. Ég tek undir þau orð hv. þm. Magnúsar Stefánssonar sem þekkir þetta mál afar vel að þarna þarf nýbyggingu og það hið fyrsta. Engu að síður verður á meðan að tryggja öryggi þeirra sem þarna eru, þangað til byggingin rís.

Það er líka jafnljóst að í fjárlögum eða í frv. til fjárlaga fyrir næsta ár er ekki gert ráð fyrir neinni flýtiframkvæmd, sérstaklega hvað varðar langlegudeildina við sjúkrahúsið á Selfossi, því miður. Það er ekki þannig. Það á enn að fara um það bil eitt ár í hönnun, að því er manni sýnist, miðað við þær tölur sem eru í frv. núna ef ekki verður mikil breyting á. Ég vil skora á hæstv. ráðherra, hafi hann ekki frá því að hann tók við embætti heilbrrh. farið austur og skoðað þær aðstæður sem búið er við, að gera það hið fyrsta. Ég hvet til að þar verði tekið á málum, bæði hvað varðar núverandi húsnæði og eins að farið verði í sérstakar flýtiframkvæmdir við byggingu á nýrri legudeild við sjúkrahúsið. Ástandið er okkur öllum, sem stöndum fyrir fjárveitingum hins opinbera, til skammar.