Vandi of feitra barna og ungmenna

Miðvikudaginn 05. desember 2001, kl. 15:55:38 (2551)

2001-12-05 15:55:38# 127. lþ. 44.6 fundur 304. mál: #A vandi of feitra barna og ungmenna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., SI
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 127. lþ.

[15:55]

Sigríður Ingvarsdóttir:

Herra forseti. Orsaka aukinnar offitu meðal barna og unglinga er bæði að leita í minni hreyfingu og röngu mataræði. Sykurneysla íslenskra barna og unglinga er gífurleg og á mikil gosdrykkjaneysla þar drýgstan þátt. Samkvæmt könnun manneldisráðs á mataræði barna og unglinga árin 1992--1993 innbyrti hvert barn að jafnaði hálfan lítra af sykruðum drykkjum á dag. Síðan hefur framboð gosdrykkja aukist um 25% og er nú 160 lítrar á mann á ári að jafnaði.

Mörg börn þurfa að sjá um sig sjálf stóran hluta dags og margt bendir til að heimilismáltíðir skipi ekki þann sess sem áður var. Mataræði er því óreglulegt og því fylgir bæði hætta á ofeldi fyrir þá sem eru mikið fyrir sætindi og mat en jafnframt hugsanlegu vaneldi fyrir önnur börn. Til að stemma stigu við óhóflegri sykurneyslu og bæta mataræði ungs fólks skiptir mestu máli að bjóða börnum hollan og góðan mat í skóla sem og á heimilum sem mettar án þess að fita. Eins og málum er háttað nú er aðeins boðið upp á skólamáltíðir í fáum grunnskólum og framhaldsskólum.