Vandi of feitra barna og ungmenna

Miðvikudaginn 05. desember 2001, kl. 15:56:56 (2552)

2001-12-05 15:56:56# 127. lþ. 44.6 fundur 304. mál: #A vandi of feitra barna og ungmenna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 127. lþ.

[15:56]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Hér er enn drepið á þetta mikla vandamál og ég verð að taka undir að erfiðast er að horfa upp á það þegar það snertir börn og unglinga.

Þegar maður horfir yfir venjulegan skólabekk í dag sér maður strax þessi 2--4 börn í hverjum einasta bekk sem eiga orðið við þennan vanda að etja. Ég veit til þess að tilraunir kennara til að hafa t.d. samband við foreldra og reyna að fá þá til að breyta mataræði gefa yfirleitt ekki góða raun. Þessi börn eru mjög mótþróafull gegn öllum ráðleggingum um mataræði og fara sínu fram. Ég held að það þurfi að koma fram miklu ákveðnari stuðningur frá heilsugæslunni heldur en hefur verið í boði, a.m.k. þar sem ég þekki til, vegna þess að þetta er mikið vandamál og það er ömurlegt að horfa upp á einsemd þeirra barna sem illa er komið fyrir að þessu leyti.