Vandi of feitra barna og ungmenna

Miðvikudaginn 05. desember 2001, kl. 16:00:38 (2555)

2001-12-05 16:00:38# 127. lþ. 44.6 fundur 304. mál: #A vandi of feitra barna og ungmenna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 127. lþ.

[16:00]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Herra forseti. Ég þakka svör hæstv. heilbrrh. í þessu máli en jafnframt lýsi ég furðu minni á innleggi hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar. Innlegg hans lýsir litlum skilningi á þessum vanda. Það er búið að fara í gegnum það að hér er um heilbrigðisvanda að ræða. Ef ekki er tekið í taumana eru þessi börn framtíðarsjúklingar landsins með háþrýsting, með sykursýki, með hreyfiskerðingar o.s.frv. þannig að ég er mjög undrandi á orðum hv. þm.

Við erum að tala um umfang sem er 7 þús. íslensk grunnskólabörn. Við erum að tala um að 1.500--2.000 börn eigi í verulegum vanda. Og ætlar hv. þm. að segja að heilbrigðiskerfið eigi að standa hjá og horfa á þetta? Verið var að stofna nýtt félag um lýðheilsu á mánudaginn var. Þar kom m.a. fram það mat landlæknis að offita barna og unglinga væri eitt mesta heilbrigðisvandamálið hér á landi í dag. Ég furða mig því verulega á því að þetta sjónarmið skuli koma frá fyrrv. heilbrrh., að hann skyldi nota þetta tækifæri til að reyna að koma einhverju höggi á mig fyrir skoðanir mínar á heilbrigðisþjónustunni er alveg með ólíkindum.

Ég þakka fyrir umræðuna sem farið hefur hérna fram. Það er alveg ljóst að forvarnir í þessum málum eru mjög mikilvægar og þar kemur til kasta skólaheilsugæslunnar. Það þarf að styrkja skólaheilsugæsluna til að taka á þessum vanda því að til mikils er að vinna. Ég vildi í þessu sambandi leggja áherslu á að ekki er nóg að taka einungis almennt á þessum vanda eins og heilbrrh. benti á og sem er þó mjög mikilvægt. Það þarf líka að taka á þessu með sérstökum úrræðum.