Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 11:35:54 (2565)

2001-12-06 11:35:54# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, Frsm. 2. minni hluta ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[11:35]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri mér grein fyrir að sumt af því sem er að finna í skattapakka ríkisstjórnarinnar og lýtur að tekjurýrnun fyrir ríkissjóð og sveitarsjóði er óumflýjanlegt. Þar er ég að tala m.a. um lækkun tekjuskattsprósentunnar sem verður að skoðast í samhengi við heimildir til sveitarfélaga um að hækka útsvar. Þarna er um eins konar tilfærslu að ræða.

Einnig fagna ég því að húsaleigubætur skulu ekki skattlagðar. En þegar kemur að öðrum skattatilfærslum er það svo, eins og ég mun gera rækilega grein fyrir í máli mínu síðar í dag, að þær eru harðlega gagnrýndar af verkalýðshreyfingunni gervallri og öllum þeim samtökum sem sinna réttindabaráttu fyrir almenning í landinu. Ég vísa þar til Landssambands eldri borgara, ég vísa til Öryrkjabandalags Íslands, Aþýðusambands Íslands, BSRB og fjölmargra annarra samtaka.

Hitt er annað mál að Íslendingar hafa á undanförnum árum notið góðs af þeirri efnahagsuppsveiflu sem einkennt hefur nær allan heiminn. Það höfum við gert þrátt fyrir þá ríkisstjórn sem hér hefur setið.