Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 11:38:09 (2567)

2001-12-06 11:38:09# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, Frsm. 1. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[11:38]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Hv. frsm. talaði um að nauðsynlegt væri að tryggja skattalegt umhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja og það tökum við undir í Samfylkingunni með því að leggja til lækkun á stimpilgjöldum og að leggjast gegn hækkun á tryggingagjaldi. Ég spyr hv. frsm. hvort hann geti ekki tekið undir með okkur að það komi mjög illa við lítil og meðalstór fyrirtæki að hækka tryggingagjald. Ég spyr hv. frsm. einnig hvort hann sé ekki líka sammála okkur um að hér sé um sérstakan landsbyggðarskatt að ræða þegar útreikningar ríkisskattstjóra sýna að þrátt fyrir verulega lækkun á tekjuskatti og hækkun á tryggingagjaldi komi þrjú kjördæmi illa út úr þessum skattbreytingum, Norðurland eystra, Austurland og Vestmannaeyjar.

Ég vil enn fremur spyrja hv. þm. að því hvort meiningin sé að bæta sveitarfélögunum upp tekjutap sem þau verða fyrir með þessum breytingum þegar sveitarfélögin tapa á þeirri skattbreytingu 1.500--1.800 millj. og af því að yfirfæra einstaklingsrekstur yfir í einkahlutafélög, þá er það mat Reykjavíkurborgar að sveitarfélögin tapi 1.360 millj. og Reykjavíkurborg ein og sér 560 millj.

Loks vil ég spyrja hv. þm. hvort hann sé sammála því sem fram kemur í umsögn Verslunarráðsins sem bendir á að samkvæmt lögum eigi tryggingagjald að renna til ákveðinna skilgreindra verkefna en ekki til að standa straum af almennum útgjöldum ríkissjóðs, skýring sú sem fram kemur í athugasemdum með frv. standist því ekki lög. Er þingmaðurinn sammála þessari skilgreiningu Verslunarráðs?