Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 11:41:58 (2569)

2001-12-06 11:41:58# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, Frsm. 1. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[11:41]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil vel að hv. þm. líði illa undir svona spurningum vegna þess að það er alveg ljóst --- það liggur fyrir í gögnum efh.- og viðskn. --- að landsbyggðin kemur sérstaklega illa út úr þessum skattalagabreytingum, og líka lítil og meðalstór fyrirtæki. Hv. þm. svarar því ekki t.d. hvort eigi að bæta sveitarfélögunum upp það mikla tekjutap sem þau verða fyrir og ég spyr: Var haft samráð við sveitarfélögin um þessa skattalagabreytingu sem er skylt að gera í samræmi við ákvæði samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga?

Það er athyglisvert líka að hv. þm. er ekki sammála umsögn Verslunarráðsins að því leyti að hér sé verið að brjóta lög en það er athyglisverð ábending.

Síðan spyr ég hv. þm.: Hvar á að fá peninga fyrir stimpilgjöldunum? Það er ekki bara hægt að segja að hér eigi að lækka stimpilgjöldin um 900 millj. á næsta ári eða að ári og segja svo ekki hvar eigi að fá peningana.