Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 13:09:30 (2573)

2001-12-06 13:09:30# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, Frsm. 1. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[13:09]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst mjög gott hjá hv. þm. að leggja alla þá vinnu sem hann hefur gert í að skoða þetta frv. og senda efh.- og viðskn. athuganir sínar. En ég taldi enga ástæðu til að láta staðreyna þá útreikninga sem hv. þm. leggur hér fram, sem felast í að lækka skatthlutfallið enn meira en ríkisstjórnin áformar, þ.e. ekki bara niður í 18% heldur í 11%, vegna þess að ég einfaldlega ósammála hv. þm. um að það sé skynsamleg leið. Ég hef rökstutt það ítarlega í máli mínu og þarf ekki að gera það frekar en ég hef hér gert.

Ég tel að munurinn á skattlagningu fjármagns og launa sé orðinn allt of mikill og ég hygg að hann sé hvergi jafnmikill og hér á landi. Ég tel að það komi einmitt í veg fyrir skattasniðgöngu að reyna að minnka þennan mun eins og við erum að gera miðað við tillögur okkar. Já, ég tel að með því að fara niður í 11%, eins og hv. þm. leggur til, muni þessi skattasniðganga enn aukast. (Gripið fram í.)

Herra forseti. Ég get ekki sagt nákvæmlega um það hvort það verði 20.150 eða 18.750 eða eitthvað meira en í öllum umsögnum frá öllum skattstjórum sem þekkja þetta gerst, sem veittu nefndinni umsögn, og frá ríkisskattstjóra, er talað um að áhrifin af því að hafa svona mikinn mun, eins og ég nefndi hér, og auðvelda yfirfærslu úr einstaklingsrekstri yfir í einkahlutafélög, yrðu þessar afleiðingar. Og það er það sem ég tel að sé rétt og satt og ég vitnaði t.d. í tölur frá skattstjóra Reykjanesumdæmis sem sýnir hvernig menn hafa verið að spila á þetta kerfi eftir því hvort er hagstæðara, að fá skattlagninguna á hagnaðinn eða launatekjur. Með öðrum orðum: Þetta eru ekkert annað en launatekjur hjá mörgum, sem ákveða sjálfir hve mikið þeir greiða í tekjuskatt af þeim og hve mikið þeir greiða í fjármagnstekjuskatt. Það er því borðliggjandi að þessu fylgja skattsvik en ég hef ekki nákvæma tölu um þau.