Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 13:51:25 (2580)

2001-12-06 13:51:25# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, PHB
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[13:51]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég ætla til að byrja með að einbeita mér að og takmarka mig við lækkun á tekjuskatti á hagnað fyrirtækja.

Hagnaður fyrirtækja er afskaplega kvikur skattstofn. Fáir skattstofnar eru eins kvikir og hagnaður fyrirtækja. Það er auðvelt að sólunda honum með lélegri stjórnun, skammtímafjárfestingum, markaðssetningu og ferðalögum. Hvati til slíks vex þegar skattprósentan er há. Þá er auðvelt að kaupa fallegar tölvur milli jóla og nýárs og var töluvert mikið gert af því þegar prósentan var 50%, enda sögðu fyrirtæki sem sýndu hagnað að ríkissjóður greiddi helminginn af fínu tölvunum. Sama gerist með ferðalög til útlanda og annað slíkt. Það verður allt miklu léttara þegar ríkissjóður greiðir stóran hluta af þeim. Þessi skattstofn er því með þeim kvikustu sem til eru.

Dæmi um skattstofn sem ekki er eins kvikur er eignarskatturinn. Það er ekki auðvelt að lækka eignir sínar, jafnvel þó menn leggist í mikið bruðl.

Herra forseti. Í skattafræðum er til svokölluð Laffer-kúrfa sem segir til um að skattstofninn breytist eftir skattprósentunni. Ef við lítum á tekjur ríkissjóðs af ákveðnum skattstofni, og ef skattprósentan væri núll prósent, eru tekjur ríkissjóðs engar til að standa undir velferðarkerfinu. Ef skattprósentan fer í 100%, segjum að 100% skattur væri af tekjum einstaklinga, þá mundu allir hætta að vinna og skattstofninn yrði líka núll og tekjur ríkissjóðs til að standa undir velferðarkerfinu yrðu engar.

Einhvers staðar á þessu ferli, frá 0% skattprósentu upp í 100% er hámark. Margir meta það svo að við séum komin yfir það hámark í mörgum skattstofnum þannig að sérhver hækkun á skattprósentu þýði í reynd lækkun á tekjum ríkissjóðs vegna þess að viðkomandi atvinnugrein dragist saman, fari til útlanda --- dæmi eru um ferðalög Íslendinga til útlanda fyrir jól til þess að ná í virðisaukaskattinn sem hopar þangað, þ.e. skattstofninn --- eða fari undir jörðina og verði undirheimaatvinnugrein og skattsvikin aukist. Menn þurfa því að ganga mjög hægt um gleðinnar dyr varðandi upphæð skattprósentu.

Ef litið er á hagnað fyrirtækja og skattlagningu á hann er ljóst að þeir sem fjárfesta í fyrirtækjum líta að sjálfsögðu á hagnaðinn eftir skatt, hvað stendur eftir þegar ríkið er búið að taka sinn skatt af hagnaðinum. Það er sá hagnaður sem þeir geta ráðstafað. Ef prósentan er 30% þá heldur hluthafinn eftir 70% af hagnaðinum. Fari prósentan í 18% þá heldur hann 82% eftir af hagnaðinum, þ.e. hann heldur 12% meira eftir, 17% meira af þeim hagnaði sem hann hélt eftir áður. Með öðrum orðum þá eykst tekjustraumur til hluthafans um 17% og þar sem gengi hlutabréfa er ekkert annað en mælikvarði á tekjustrauma þess í framtíðinni þá ætti gengi hlutabréfa að hækka um 17%.

Áhrif skattalækkunar á nýsköpun og fjárfestingar eru þau að fólk sem ætlar að leggjast í nýsköpun, segjum úti á landi einhvers staðar, lítið fyrirtæki, ætlar að tína einhver jurtagrös eða hvað sem er, (Gripið fram í: Fjallagrös.) já, fjallagrös, eins og bent hefur verið á hér, herra forseti, eða herða þorskhausa, gerir greiðsluáætlun ef skynsemi er í hlutunum og metur tekjur og gjöld næstu ára, helst til 7--10 ára. Ég mundi ráðleggja hverjum manni sem ætlar í nýsköpun að gera það. Síðan metur hann mismuninn og dregur frá því viðkomandi tekjuskatt. Eftir stendur tekjustraumur sem hann á von á að fá sem hann metur sem verðmæti nýsköpunarinnar, verðmæti fyrirtækisins sem er verið að stofna. Það er ljóst af þessu dæmi að eftir því sem skattprósentan er lægri, eftir því sem ríkið hleypir meiru af hagnaðinum til þess sem ætlar í nýsköpun --- í fjallagrasaframleiðslu eða eitthvað annað --- þeim mun meiri er vilji manna til að fjárfesta í nýsköpun. Menn ætla jú aldrei að fara út í nýsköpun til þess að tapa, herra forseti. Það er aldrei ætlun fólks með því að fara út í nýsköpun að tapa. Menn ætla sér að græða á rekstri fyrirtækja og að fara út í nýsköpun.

Hið sama á við um fjárfestingar fyrirtækja. Ef fyrirtæki ætlar að fara í fjárfestingu, hvort sem það er nú að kaupa nýjan vörubíl eða gera eitthvað annað, eða bóndi ætlar að rækta tún sem fjárfestingu, metur það tekjur og gjöld af þessari fjárfestingu og að sjálfsögðu þann hagnað sem það heldur eftir þegar ríkið er búið að taka sinn skerf. Það er einmitt sá hagnaður sem fyrirtækið heldur. Lægri skattprósenta þýðir að arðurinn af fjárfestingunni vex og hvatinn til fjárfestinga vex. Lægri tekjuskattar á fyrirtæki þýða auknar fjárfestingar, aukna nýsköpun og aukna atvinnu, sem kemur öllum til góða.

Það er kannski ekki undarlegt að atvinnuleysi á Íslandi er nánast ekkert á meðan t.d. í Evrópusambandinu, þar sem tekjur fyrirtækja eru hærra skattlagðar, er viðvarandi atvinnuleysi um 10%, sem er skelfilegt, herra forseti. Það er skelfilegt, sérstaklega fyrir ungt fólk sem þarf að bíða í ár eða áratugi eftir að fá vinnu. Það hefur auk þess slæm áhrif á samstarf launþega og fyrirtækja eða atvinnurekenda þegar annar er alltaf í þeirri stöðu að biðja um vinnu en hinn getur alltaf bent á að fyrir utan bíði margir eftir stöðunni.

Herra forseti. Við búum við þá stöðu í dag að ríkissjóður er að selja fyrirtæki. Menn geta verið ánægðir með það eða ekki. Sumir eru á móti því að selja ríkisfyrirtæki, aðrir vilja það. En hvorum megin sem menn standa þá munu menn vilja fá sem hæst verð fyrir fyrirtækin eftir að búið er að taka ákvörðun um að selja þau. Miðað við það sem ég gat um áðan, að gengi hlutabréfa ætti að hækka í takt við lækkun á tekjuskatti, þá hef ég reiknað út og sendi sem umsögn til hv. efh.- og viðskn. að lækkun tekjuskatts úr 30% í 18% þýddi, eins og ég gat um áðan, 17% hækkun á tekjustraumum. Sú breyting ein sér ætti að þýða 17% hækkun á gengi allra hlutabréfa. Gengi hlutabréfa hækkaði reyndar um 6--7% daginn eftir að tilkynnt var um þessa skattbreytingu en þar eru líka fleiri atriði inni í sem vega á móti, t.d. hækkun á tryggingagjaldi.

[14:00]

Þessi breyting ein sér ætti því að þýða 17% hækkun á gengi hlutabréfa, þar á meðal á gengi þeirra hlutabréfa sem ríkissjóður er að selja, 17% af 68 milljörðum sem eru óseldir, og það er gengið fyrir tilkynningu þessarar skattalækkunar. Gengi þeirra ætti þá að hækka um 11,7 milljarða eða 12 milljarða tæplega að öllu öðru óbreyttu. Eða ef menn eiga í erfiðleikum með að selja þessi bréf þá ætti að vera miklu auðveldara að selja þau eftir að skatturinn hefur verið lækkaður.

Þessi tala, 12 milljarðar, er svo stór að allur kostnaður í þennan skattapakka sem nefndur hefur verið í greinargerð fjmrn., 6,8 milljarðar, tæpir 7 milljarðar, er hverfandi miðað við hagnað ríkissjóðs af þessari einsskiptissölu. Nú munu sumir segja að verið sé að selja einu sinni en skatturinn virkar til margra ára. Því kemur í ljós að tekjuhagnaður ríkissjóðs af þessum þremur fyrirtækjum svarar til tekjutapsins í fjögur og hálft ár, hvorki meira né minna. Það má því borga tekjutap ríkissjóðs vegna lækkunarinnar í fjögur og hálft ár og þá gef ég mér að skattstofninn sé sá sami, hann breytist ekki. En að sjálfsögðu mun skattstofninn stórhækka við það að lækka prósentuna.

Samkvæmt þessum sömu hugleiðingum mundi borga sig að fara með skattprósentuna niður í 0%, herra forseti, vegna þess að þá mundi gengi hlutabréfa almennt, á öllum hlutabréfum, sem sýna hagnað --- önnur eru ekki metin til verðs, fyrirtæki sem sýna viðvarandi tap eru verðlaus, herra forseti, stefna beint í gjaldþrot. Ef skatturinn yrði lækkaður úr 30 niður í 0% þá mundi það þýða að hluthafinn sæi 100% eftir af hagnaðinum í staðinn fyrir 70%, sem þýðir 43% hækkun. Það mundi þýða að þessi þrjú fyrirtæki mundu hækka um 29 milljarða við þá breytingu eina sér.

En þá er spurningin: Hvað er mögulegt að fara með tekjuskatt fyrirtækja langt niður? Ég tel að ekki sé mögulegt pólitískt að fara með hann niður í 10% vegna þess að þá munu löndin í kringum okkur í OECD tala um skattaeyju eða skattahlíf og þau munu ekki líða það. Ég hef því lagt til að farið verði niður í 11%, sem er nokkuð lægra en skattar eru á Írlandi, þar sem þeir eru 12,5%, en ekki það mikið lægra að menn geti sett út á það sérstaklega. Við þá lækkun, niður í 11%, mundu þessi fyrirtæki hækka um 18,5 milljarða vegna þeirra breytinga einna sér, þessi þrjú fyrirtæki sem ég nefndi. Ég skil ekki í þeim mönnum sem vilja velferðarkerfinu vel eða börnunum okkar sem borga halla á ríkissjóði til framtíðar, eða þeim mönnum sem eru í forsvari fyrir opinbera starfsmenn og ættu að hafa áhyggjur af lífeyrisskuldbindingum þeirra, að það verði staðið við þær yfirleitt, ég skil ekki í þeim að vilja ekki sjá 18,5 milljörðum meira inn í ríkissjóð en ella, í staðinn fyrir 12 sem koma núna. Ég geri ráð fyrir því að þegar menn hugleiða málið og sjá það í þessu ljósi þá muni mjög margir styðja það að fara með tekjuskatt fyrirtækja í 11%, sérstaklega þegar haft er í huga að ef skatturinn yrði 11% þá hefðu Íslendingar varla undan að skrá erlend stórfyrirtæki sem mundu flytja höfuðstöðvar sínar hingað úr öðrum löndum. Alþjóðafyrirtæki sem eru með rekstur um allan heim og geta verið staðsett hvar sem er mundu flytja höfuðstöðvar sínar hingað til þess að nýta þessa lágu skattprósentu. Fyrir utan það hefur Ísland marga aðra kosti eins og mjög stöðugt efnahagslíf og hér eru ekki neinar óeirðir eða því um líkt.

Það er einn galli við þessa tillögu, herra forseti, og hann er sá að munurinn á tekjusköttum einstaklinga og fyrirtækja vex. Og eins og kom fram í ágætri ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur hér áðan, sem var afskaplega vel unnin, mundi hvatinn vaxa til þess að misnota kerfið, til að svíkja undan skatti eða til skattasniðgöngu eins og hún nefndi það.

Þá er náttúrlega spurningin hvort við ætlum að láta þá menn sem brjóta lög stýra lagasetningunni. Eiga þeir að ráða því hvort við lækkum skattana niður í 11% og náum í 6 milljarða aukalega til þess að standa undir velferðarkerfinu? Það finnst mér ekki. Mér finnst að bæta eigi skatteftirlitið á þessu sviði og láta ekki slíkar hugleiðingar stýra því hvort menn fari út í skattalækkanir.

Svo er líka spurning: Ef það kæmi nú einhver vísir að kreppu hér á landi, ef það skyldi gerast sem er langt í frá í dag, þá geta menn að sjálfsögðu og ættu að lækka tekjuskatt einstaklinga vegna þess að hann er orðinn of hár. En það er ljóst eins og staðan er í dag að lækkun á tekjuskatti einstaklinga mundi auka ráðstöfunarfé þeirra og mundi virka eins og bensín á eldinn í þeirri þenslu sem við búum við enn sem komið er.

Herra forseti. Vegna þess arna hef ég lagt til á sérstöku þingskjali að í stað þess að lækka tekjuskatt fyrirtækja í 18% verði hann lækkaður í 11% með þessum rökum. Þetta getum við bara gert einu sinni, herra forseti, vegna þess að þegar búið er að selja þessi ríkisfyrirtæki þá dettur þessi hagnaður út. Og ef við skyldum lækka tekjuskattinn þá þá njóta þeir hluthafar sem hafa keypt þau fyrirtæki þess hagnaðar en ekki ríkissjóður. Það sem ég legg áherslu á að sé gert núna er að þessi skattprósenta verði lækkuð þannig að ríkissjóður njóti þessa hagnaðar.

Mörg önnur atriði í þessu frv. sem eru umhugsunarverð og ég mun koma inn á þau í seinni ræðu minni.