Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 14:18:03 (2586)

2001-12-06 14:18:03# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[14:18]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. svaraði sjálfum sér því hann sagði að það hefðu komið athugasemdir vegna þess arna. 5% voru greinilega of lág. Ég tel hins vegar að 11% væru viðunandi og ég vil benda á að flest lönd eru með svona skattaskjól T.d. er Danmörk með sérstakt skattaskjól fyrir fyrirtæki sem starfa erlendis frá Danmörku. Og það sem við erum að gera núna með því að lækka skattana er hreinlega að stöðva flutning íslenskra fyrirtækja eða hagnað íslenskra fyrirtækja til útlanda því að það er hægt að flytja hagnað til útlanda án þess að flytja fyrirtækin. Það gera menn með því að stofna dótturfyrirtæki einhvers staðar og selja því vöruna á lágu verði og það selur svo vöruna áfram á háu verði.

Þessi skattaskjól eru því til mjög víða. Og það er t.d. eitt merkilegt sem ég rakst á líka að sparifé eða fjármagn frá Austurlöndum nær er sums staðar skattað öðruvísi en annars staðar er gert, þ.e. ekki neitt. Það eru því alls konar reglur í gangi í heiminum með skattlagningu á tekjum og hagnaði og arði og sést ekki alltaf á tölum frá OECD.

En varðandi það sem hv. þm. sagði um verðmat á fyrirtækjum, þá hlýtur hann sem fjárfestir í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og eins í BSRB, sem hefur nú fjárfest í fyrirtækjum, ekki alltaf glæsilega, hann hlýtur að hafa metið þann hagnað sem hann sér eftir skatt. Hann getur ekki metið skattinn sem ríkið hirðir sem hagnað sinn sem fjárfestis. Hann hlýtur að meta hagnaðinn eftir skatt. Og þar af leiðandi hlýtur hann að meta meira fyrirtæki sem borgar lítinn skatt eða engan af hagnaðinum heldur en þau sem borga mjög háan skatt. Ég spyr hv. þm.: Hvað mundi hann meta fyrirtæki sem væri með 100% skatt á hagnað og sæi aldrei neinn arð? Hvers virði mundi hann meta það?