Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 15:27:15 (2590)

2001-12-06 15:27:15# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[15:27]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir gott samstarf í nefndinni við meðferð málsins. Hann var þar óvenjuhljóður á köflum. En það hefur ekki komið að sök því ég sé að honum hefur tekist að koma saman ágætisnefndaráliti frá hans sjónarhóli.

Ég var hins vegar mjög impóneraður í rauninni yfir þessari ágætu umfjöllun hans um samspil fjármagnstekjuskatts og eignarskatts og þess að þessa skatta ætti að skoða í samhengi. Hins vegar verð ég að viðurkenna að mér finnst að álit hans og skoðun, sem ég ber mikla virðingu fyrir, hafi komið fullseint fram því ég heyrði aldrei þessa skoðun koma fram hjá hv. þm. þegar fjármagnstekjuskatturinn var tekinn upp á sínum tíma. Þó hefði verið ástæða til að koma með hana því þegar fjármagnstekjuskatturinn var settur á var eignarskatturinn ekki lækkaður á móti. Það er þannig spurning hvort hv. þm. sé að skipta um skoðun á þessu máli frá því þegar fjármagnstekjuskatturinn var upphaflega innleiddur eða hvort þetta nýja prinsipp á allt í einu að koma núna á þessu augnabliki. Af hverju var þetta prinsipp ekki eins mikilvægt á þeim tíma þegar fjármagnstekjuskatturinn var tekinn upp?