Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 15:29:02 (2591)

2001-12-06 15:29:02# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, Frsm. 2. minni hluta ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[15:29]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Undir lok níunda áratugarins og í byrjun þess tíunda fóru fram mikil átök í þjóðfélaginu um það hvort yfirleitt ætti að taka upp fjármagnstekjuskatt. Ég var í hópi þeirra sem börðust mjög ákveðið fyrir því. Ég þekki ekki afstöðu hv. þm. Vilhjálms Egilssonar, fróðlegt væri að fá að heyra hver sjónarmið hans voru. En við bentum þá á að Ísland væri eitt fárra landa í heiminum sem legði ekki skatta á eigendur fjármagns. Reyndar hefur stóreignafólki og fjármagnseigendum verið hlíft um of í skjóli þeirra ríkisstjórna sem hér hafa setið allt of lengi og verið of bláar á litinn.

Ég er að tala fyrir því núna að mér finnist eðlilegt að þess verði freistað að skapa þverpólitíska sátt um skattastefnu sem kæmi til góða bæði atvinnurekstri og fólkinu í landinu og væri í senn réttlátt. Mér finnst eðlilegt við slíka endurskoðun að menn hafi þessi meginmarkmið í huga sem ég gat um, að það sé eitthvert samræmi milli skattlagningar á tekjur einstaklinga og fyrirtækja annars vegar og fjármagns hins vegar í stað þess að fara lengra í þá átt sem við höfum verið að feta okkur núna á síðustu árum, að lækka skatta á fyrirtæki, lækka skatta á þá sem búa best í þessu þjóðfélagi, en þyngja skattbyrðarnar hjá hinum.