Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 15:51:37 (2595)

2001-12-06 15:51:37# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[15:51]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hér hafa athyglisverðar umræður staðið yfir í dag um þessar miklu breytingar á skattalögum sem ríkisstjórnin leggur til. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur gert ákaflega góða grein fyrir afstöðu Samfylkingarinnar í þessu máli. Við höfum lagt hérna fram mjög ítarlegt nál. og skýrt afstöðu okkar til þeirra breytinga sem lagðar eru til af hálfu ríkisstjórnarinnar. Sömuleiðis höfum við í Samfylkingunni í ítarlegu máli og með ítarlegum rökum skýrt þær breytingar sem við viljum sjá á þessum málum.

Herra forseti. Mér hefur þótt merkilegt að hlusta á hv. þm. Pétur H. Blöndal og sömuleiðis hv. formann efh.- og viðskn., Vilhjálm Egilsson.

Fyrst langar mig aðeins að drepa á þær kenningar sem Pétur H. Blöndal var með uppi. Hv. þm. gat þess að það væri bótin á öllum raunum ríkissjóðs, ekki bara á Íslandi, heldur annars staðar líka ef menn færu þá leið að lækka skatta á fyrirtækjum. Það mundi leiða til þess, sagði hv. þm., að tekjustraumar í gegnum fyrirtæki mundu aukast. Þær aðferðir sem notaðar eru til að verðmeta eða gengismeta fyrirtæki eru þess eðlis að það leiðir til þess eftir ákveðnum formúlum að fyrirtækin hækka í verði. Hv. þm. Pétur H. Blöndal kvaðst hafa reiknað það út eftir Laffer-kúrfunni að fyrirtæki sem nú á að selja af hálfu ríkisins mundu við þetta aukast að verðgildi um eina 12 milljarða. Og hv. þm. spurði: Hví í ósköpunum samþykkja menn þetta ekki með lófataki og fá þar með eins skiptis greiðslu, eins og hv. þm. orðaði það, upp á 12 milljarða?

Hv. þm. sagði að miðað við það líkan sem hann beitir, og væntanlega byggist á Laffer-kúrfunni, ætti verðgildi fyrirtækja að aukast um 17%. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að hv. þm. hafi sjálfur í máli sínu fellt rökin undan þessu. Í fyrsta lagi gat hann engin dæmi bent á um að þetta hefði staðist. Í öðru lagi gat hann þess að þegar ríkisstjórnin lagði fram þessar hugmyndir sínar í formi frumvarpa leiddi það að vísu til hækkunar fyrirtækja á Verðbréfaþingi Íslands en þær hækkanir voru miklu minni en hv. þm. sagði að hækkanir fyrirtækja ættu að verða samkvæmt Laffer-kúrfunni góðu. Vera kann því að einhver misbrestur hafi orðið hjá félaga Laffer þegar hann var að gera þetta.

Ég vísaði raunar einnig til þess, herra forseti, að í Bandaríkjunum hefði Bush gefið út yfirlýsingar um gríðarlegar skattalækkanir þegar hann komst til valda. Það sér ekki á efnahag Bandaríkjanna að menn hafi talið að þær mundu leiða til allra þessara miklu hækkana sem hv. þm. taldi að yrði miðað við svona miklar skattalækkanir þótt þess beri að vísu að geta að á síðustu vikum eftir að markaðir í Bandaríkjunum hafa farið ákaflega langt niður hafa þeir verið að skríða eitthvað upp.

Herra forseti. Hér er um að ræða kenningar sem eru athyglisverðar og gaman er að fjölyrða um, skemmtilegar til íhugunar, en þær skortir dóm reynslunnar. Það er hvergi hægt að benda á að skattalækkanir í verulega miklum mæli hafi leitt til þess að efnahagsumsvifin hafi stóraukist. Þetta held ég að hafi skort undir röksemdir hv. þm. Péturs H. Blöndals.

Ég tel sjálfur, eins og ég hef sagt, að hóflegar skattalækkanir á fyrirtæki geti verkað eins og smurolía við sérstakar aðstæður til að ýta gangvirkinu af stað aftur en að þær geti gert það í þeim mæli sem hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði hér áðan dreg ég í efa.

Hv. þm. sendi til efh.- og viðskn. mikið plagg þar sem hann gerði grein fyrir ákveðnum hugmyndum. Ég var að vísu ekki viðstaddur í nefndinni þegar það var tekið til ítarlegrar umræðu. Ég minnist þess hins vegar að við spurðum fulltrúa bæði fjmrn. og ríkisskattstjóra hvort von væri til þess að hægt væri að finna einhvern skóla eða einhverjar óvefengjanlegar kenningar sem sýndu fram á þetta. Og svarið var, eins og kemur fram í nál. okkar, að svo væri ekki.

Herra forseti. Annað sem mig langar til að gera að umræðuefni eru ákveðnar staðhæfingar í máli hv. þm. Vilhjálms Egilssonar. Hann vék að þeirri röksemd okkar í Samfylkingunni og stjórnarandstöðunni, sem reyndar má líka lesa í umsögnum ýmissa samtaka sem sendu álit sitt til efh.- og viðskn., að hækkun á tryggingagjaldi yki launakostnað fyrirtækja og þar af leiðandi teldum við að við þessar aðstæður væri þetta ekki ráðlegt, auk margra annarra ástæðna sem við nefndum líka. Þá kom hv. þm. Vilhjálmur Egilsson og ég heyrði ekki betur en að hann væri að leggja að jöfnu hækkun ríkisstjórnarinnar á tryggingagjaldi annars vegar og hins vegar umsamdar launahækkanir í kjarasamningum. Hv. þm. sagði:

,,Ja, ef menn eru á móti hækkun tryggingagjalds vegna þess að það eykur launakostnað fyrirtækja, vilja menn þá ekki með sömu rökum leggjast gegn launahækkunum í kjarasamningum?``

Herra forseti. Þetta er náttúrlega svo ákaflega vond röksemdafærsla að ég er gáttaður á því að formaður efh.- og viðskn. skuli með þessum hætti leiða hana inn í umræðuna.

Herra forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir færði í ítarlegu máli og með sterkum röksemdum að því gild rök, að mér þykir, að sú lækkun sem við leggjum til á tekjuskatti fyrirtækja væri nægileg til þess að viðhalda því skattaforskoti sem Íslendingar hafa hvað varðar tekjuskatt á hagnað fyrirtækja í alþjóðlegum samanburði. Hv. þm. gat þess nánast hvergi í máli sínu og ég var nokkuð hissa á því að mér þótti hann í engu geta hrakið þessar röksemdir sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir kom með, og vísaði hann þó til ýmissa gagna. Ég hlýt að óska eftir því að hv. þm. gefi þessu ríkari gaum þegar hann heldur seinni ræðu sína síðar í dag.

Jafnframt þótti mér, herra forseti, að lítið legðist fyrir hv. formann efh.- og viðskn. þegar hann hélt því fram að Samfylkingin væri í reynd að vinna gegn hagsmunum lítilla fyrirtækja. Mér þótti þetta koma úr hörðustu átt þegar horft er til þess að hv. þm. hefur verið í fylkingarbrjósti þeirra stjórnarliða sem hafa varið hækkun á tryggingagjaldi um 0,77%. Við hvaða fyrirtæki, herra forseti, skyldi þessi hækkun koma hvað verst? Lítil fyrirtæki? Já. Við lítil fyrirtæki á landsbyggðinni sem hv. þm. ber svo fyrir brjósti? Já. Við ný fyrirtæki í þekkingariðnaði, sprotafyrirtæki, frjóangana inn í framtíðina? Já.

Hv. þm. beitir sér fyrir því að hækka skatta á vinnuafl. Mörg þessara litlu fyrirtækja eiga ekkert nema mannauðinn, eiga engar eignir, hafa ekki getað sýnt fram á neinn hagnað og það er alveg ljóst, miðað við það útlit sem er í efnahagsmálum, að það er ekki von á neinum hagnaði hjá þeim. Lækkun á tekjuskatti fyrirtækjanna hjálpar þessum fyrirtækjum ekki. Mörg þessara fyrirtækja eru fleiðruð upp á herðablöð sökum þeirrar lægðar sem nú gengur yfir efnahagslífið og má að stórum hluta, að ég tel, rekja til mistaka við stjórn efnahagsmála.

[16:00]

Ætli þurfi mjög stórt högg til að ýta sumum þessara fyrirtækja yfir blábrún bjargsins? Það held ég ekki. Gæti það verið að hækkun tryggingagjaldsins hjálpi einhverjum þeirra? Nei, en hún hjálpar kannski sumum þeirra fram af brúninni, herra forseti.

Mér finnst því skjóta skökku við þegar hv. þm. kemur hér og heldur því fram að við séum sérstaklega að vinna gegn hagsmunum smárra fyrirtækja, þegar ljóst er að veigamikill þáttur í tillögum ríkisstjórnarinnar gerir einmitt það sem hann er að saka okkur um.

Í annan stað, herra forseti, hlýt ég að vekja athygli á því að eitt af því sem kemur litlum fyrirtækjum ákaflega vel eins og mörgu fólki sem hefur ekki mikla fjármuni umleikis og þarf ítrekað að slá lán til að fleyta sér áfram, það sem kemur þessum aðilum í samfélaginu hvað best er að lækka stimpilgjöld. Stimpilgjöld sem eiga sér ekki mörg fordæmi erlendis. Stimpilgjöld sem ég held að Sjálfstfl. hafi ákaflega lengi talað um að ætti að leggja af.

Maður hefði talið að þegar svona gagnmerkar, svo notuð séu orð stjórnarliða, tillögur að skattbreytingum koma fram, þá væri þetta í gadda slegið. Svo er ekki, herra forseti, það er að vísu talað um að að lækka eigi stimpilgjöld um 900 millj. sem er ekki einu sinni þriðjungurinn af þeirri upphæð sem greidd eru í stimpilgjöld núna, en það er ekkert sagt nákvæmlega hvenær og það er heldur ekki sagt með hvaða hætti á að fjármagna það.

Við því geld ég varhug, herra forseti. Hvers vegna? Vegna þess að mér þykir sem þar með sé sú skattbreyting sett niður í aðra röð og óæðri miðað við hinar. Ríkisstjórnarliðið hefur sagt hvenær hinar breytingarnar eiga að taka gildi. Ríkisstjórnin hefur líka sagt með hvaða móti hún telur að fjármagn fáist til að standa straum af þeim, en hún gerir það ekki um þessa. Segir ekki hvenær, segir ekki hvernig.

Ég hlýt að halda því fram að hér sé fugl í skógi en ekki í hendi. Ég hlýt að halda því fram, herra forseti, að um sé að ræða part af ákveðnum blekkingarleik hjá ríkisstjórninni sem hefur auðvitað séð að sú aðferð sem hún notar til að fjármagna lækkun tekjuskatta sem einkum kemur stórum fyrirtækjum á þéttbýlissvæðinu til góða, þ.e. tryggingagjaldið, kemur svo illa við litlu fyrirtækin, ekki síst litlu fyrirtækin á landsbyggðinni, að hún þurfti að láta skína í einhverja gulrót. Og þessi gulrót var lækkun stimpilgjalda. Það hefði komið þessum fyrirtækjum ákaflega vel ef það hefði verið dagsett, tímasett hvenær átti að lækka stimpilgjöldin.

Það er hins vegar þannig, herra forseti, að Samfylkingin sem leggur hér fram ítarlega tillögugerð, leggur fram tillögu um það að á næsta ári verði stimpilgjöldin lækkuð um þriðjung, þ.e. um 1.100 millj. Og hún segir líka frá því hvernig á að fara í það að fjármagna þetta. Mér þykir það því óhæfa hjá hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni að koma hingað og halda hinu þveröfuga fram þegar flokkur eins og Samfylkingin er að leggja fram beinharðar rökstuddar tillögur um að bæta hag smárra fyrirtækja.

Meginröksemdin sem ég greindi í máli hv. þm. fyrir þeirri staðleysu sinni er sú að Samfylkingin sé á einhvern hátt á móti því að einyrkjar breyti rekstri sínum úr einstaklingsrekstri yfir í einkahlutafélög. Og hv. þm. taldi að við hefðum í frammi málflutning sem gerði það að verkum að hann gæti með einhverjum sóma dregið þá ályktun að við værum að gefa okkur fyrir fram að þeir menn væru lögbrjótar. Ég bið hv. þm. að finna þessu stað í því nál. sem hér liggur fyrir.

Að sönnu er rétt að þar er vakin athygli á því að upp kunni að koma sú staða að einstaklingar í slíkri stöðu hallist að því að beita því sem kallað er gerviverktakar. Sömuleiðis að færa ýmsan kostnað sem tengist rekstri þeirra sjálfra, tilveru þeirra og fjölskyldu þeirra, heimili, sem kostnað þess einkahlutafélags. Herra forseti. Hvaðan skyldi Samfylkingin hafa fengið þær hugmyndir sem hún leggur ekki fram sem sínar eigin, heldur getur nákvæmlega hvaðan koma? Frá ríkisskattstjóra, ýmsum einstökum skattstjórum og frá skattrannsóknarstjóra, sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson kallaði sérstaklega á fund nefndarinnar til að kynna nefndinni og þar með hv. þm. hinar nýju leiðir sem menn nota til að koma kostnaði af sjálfum sér með þessum hætti yfir á einkahlutafélögin. Sú hætta sem þarna er fyrir hendi er hætta sem bent er á af fulltrúum ríkisvaldsins og Samfylkingin hefur samviskusamlega bent á þessi álit þeirra.

Herra forseti. Samfylkingin hefur ekki lagst gegn því að einyrkjar og aðrir slíkir breyti rekstri sínum yfir í einkahlutafélög, það er fráleitt að halda því fram. Samfylkingin hefur hins vegar bent á að með því að breyta á þennan hátt skatti á hagnað slíkra félaga sé hvatinn svo mikill fyrir þá aðila að vinda sér í þessa færslu að það muni leiða til þess að þau 25 þúsund sem falla í þennan hóp muni að öllum líkindum gera það. Það þýðir að skattar sveitarfélaga munu t.d. lækka um 1.000 milljónir, tekjur ríkisins munu lækka um 500 millj. af þessum völdum. Og ef hv. þm. Vilhjálmur Egilsson vill breyta þessu, þá verður hann auðvitað sýna fram á hvernig sveitarfélögin eiga að standa undir ýmsum þáttum samneyslunnar, sem bæði ég og hann njóta, á hvern hátt á að bæta þeim þetta. Á þetta höfum við bent. Menn miklu vísari okkur hafa sagt að eina og besta leiðin til að koma í veg fyrir þetta sé að samræma skattlagningu, annars vegar hlutafélaganna og einstaklinganna. Þess vegna höfum við lagt til, herra forseti, að skatthlutfallið hjá fyrirtækjum verði 25% og við höfum sömuleiðis lagt til að fjármagnstekjuskattur verði hækkaður upp í 16%.

Þegar þetta tvennt er tekið með er það einfaldlega svo að líkast til er óbreyttur sá hvati sem í dag ýtir mönnum til þess að skipta úr einstaklingsrekstri yfir í einkahlutafélög. Í dag tel ég að þann hvata megi meta eftir atvikum, hvort menn eru í hátekjuskattsstiginu eða ekki, á bilinu 8--11%. Með þeim breytingum sem hv. þm. leggur hér til er munurinn 34%, þannig að hvatinn er þrefalt sterkari en ella.

Við höfum sem sagt verið að beita okkur fyrir ákveðnu samræmi þarna, herra forseti. Samfylkingin hefur hins vegar með engu móti verið að leggja til einhverjar girðingar sem komi í veg fyrir að menn svipti rekstri sínum á milli þessara tveggja forma. En, herra forseti, það vill svo til að slíkar girðingar, slíkar hömlur, hafa verði lagðar til á undanförnum árum. Ég minnist einnar stofnunar sem gerði það. Hvaða stofnun var það? Það var Verslunarráð. Hafi einhver gert það á síðustu árum, reynt með einhverjum hætti aðeins að torvelda það, þá eru það aðrir en Samfylkingin, herra forseti.

Ég vil í örstuttu máli, herra forseti, rekja hérna og taka saman hvaða afstöðu Samfylkingin hefur til þeirra breytinga sem hér liggja fyrir og hvaða breytingar við viljum gera. Þær eru tíu talsins.

Í fyrsta lagi vill Samfylkingin lækka tekjuskatt á fyrirtæki úr 30% í 25%.

Í öðru lagi leggjumst við alfarið gegn hækkun tryggingagjalds um 0,77%. Við teljum að við þessar aðstæður sé það ekki rétt.

Í þriðja lagi viljum við hækkun frítekjumarka. Við viljum að hækkun frítekjumarka í hátekjuskatti verði frestað um tvö ár.

Við styðjum í fjórða lagi hækkun fríeignamarka eignarskatts og sérstaks eignarskatts um 20% vegna eigna í árslok 2001 til að koma í veg fyrir hækkun eignarskatta vegna sérstakrar hækkunar á fasteignamati.

Í fimmta lagi styður Samfylkingin afnám sérstaks eignarskatts á lögaðila og einstaklinga og lækkun á almennum eignarskatti á einstakling úr 1,2% í 0,6% í árslok 2002. En við leggjum til að almennur eignarskattur á lögaðila lækki einungis úr 1,2% í 0,9%. Á móti er lögð til sú hækkun á fjármagnstekjuskatti sem ég gat um hér áðan. Það er í reynd, herra forseti, ekkert annað en lækkun hjá fjölmörgum, vegna þess að sú breyting með því gólfi sem við leggjum líka til, sem er þannig að fjármagnstekjur einstaklinga að 100 þús. kr. og hjóna að 200 þús. kr. verði ekki skattlagðar, þýðir að þeim sem greiða fjármagnstekjuskatt fækkar um ríflega 50 þúsund.

Í sjötta lagi styðjum við lækkun á tekjuskatti einstaklinga um 0,33% sem var samið um í tengslum við kjarasamninga og eiga að taka gildi næstkomandi áramót, en þá leggjum við jafnframt til, herra forseti, að hrinda í framkvæmd þeirri stefnu sem við höfum rekið og samþykkt og ítrekað á landsfundi okkar fyrir skömmu um auðlindagjöld, að þau verði tekin upp til þess að kosta einn áfanga til viðbótar í lækkun á almennum tekjusköttum, sem verði 0,25% á árinu 2003. Við teljum, herra forseti, að það henti ákaflega vel þeirri stöðu sem spáð er að verði þá á hagsveiflunni. Ég vísa líka til þess, herra forseti, að í Danmörku er nú komin ný ríkisstjórn, sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson t.d. er áreiðanlega ekki mjög mótfallinn. (Gripið fram í.) Er áreiðanlega ekki mjög mótfallinn. (VE: Ég er ánægður með hana.) Ánægður með hana, segir hv. þm. og ég skil það vel og þóttist geta gefið mér þá niðurstöðu. Og hún er einmitt að fara svipaðar leiðir.

Í sjöunda lagi, herra forseti, styðjum við að sjálfsögðu afnám skattskyldu húsaleigubóta.

Í áttunda lagi leggjum við til að samhliða þessum aðgerðum verði skattlagning á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga afnumin.

Í níunda lagi teljum við að rétt sé að skipa nefnd með aðild fulltrúa allra stjórnmálaflokkanna, aðila vinnumarkaðarins, samtaka öryrkja og aldraðra, sem hafi það verkefni að kanna hvaða leiðir eru færar til að afnema eða lækka verulega þá skatta sem launafólk og lífeyrisþegar eru að greiða, þ.e. fólk sem er með tekjur undir lágmarkslaunum.

Í tíunda lagi, herra forseti --- og ég vil vekja sérstaka athygli á því, vegna þess að láðst hefur að skrá það í upptalningu í nál. á bls. 21 --- leggjum við einnig til að árið 2003 komi til framkvæmda lækkun á stimpilgjöldum sem nemur 1.100 millj. og ég hef þegar rakið.

Herra forseti. Mig langar að síðustu aðeins að ítreka það að við teljum að nauðsynlegt sé að beita sér fyrir breytingum sem jafna aðstöðu Íslendinga gagnvart útlöndum. Af því leiða tillögur okkar varðandi stimpilgjöld. Af því leiðir stuðningur okkar varðandi breytingar á eignarskatti. Af því leiðir sömuleiðis, herra forseti, að við teljum að það sé nóg að lækka tekjuskatt fyrirtækja úr 30% niður í 25% vegna þess að með því er ekki aðeins verið að halda í við breytingar og þróun erlendis, heldur er með því verið að viðhalda skattprósentunni sem Íslendingar hafa í fyrirtækjarekstri gagnvart útlöndum.