Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 16:14:33 (2596)

2001-12-06 16:14:33# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[16:14]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir ágætissamstarf í nefndinni í meðferð málsins og ágæta ræðu.

Ég vil aðeins koma inn á það að það sem ég var að spyrja um varðandi ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur var hvort Samfylkingin hefði lagt mat á hvaða áhrif yrðu af launahækkunum sem hækkuðu launakostnað, af því að Samfylkingin var með ákveðið mat og ákveðin varnaðarorð út af 0,77% hækkun á tryggingagjaldi sem vissulega hækkar launakostnaðinn og þessi 0,77% hækkun var talin hafa áhrif á uppsagnir og auka atvinnuleysi. Þess vegna spurði ég eftir mati á þessu, ekki það að ég ætlaði að leggja til að taka ætti til baka umsamdar launahækkanir, það er af og frá.

Varðandi tekjuskattslækkanir fyrirtækjanna, þá eru þær algjörlega nauðsynlegar til að auka samkeppnishæfni okkar. Ef við leggjum saman eignarskattsprósentuna, tekjuskattsprósentuna eins og hún er og fjármagnstekjuskattsprósentuna og göngum út frá 10% arðsemi á eigið fé, sem er afar hátt miðað við það sem gengur og gerist í atvinnulífinu, þá fáum við effektífa skattprósentu á eigið fé eða hagnað af eigin fé fyrirtækja yfir 50%. Og ekki síst ef við lítum til atvinnulífs úti á landi þar sem arðsemin hefur ekki verið mikil þá gagnast eignarskattslækkunin sérstaklega mikið vegna þess hvað þessi eignarskattsprósenta bítur fast í eigið fé. Með því að lækka tekjuskattinn og eignarskattinn er einmitt verið að koma til móts við þau fyrirtæki.

En best væri nú ef atvinnulífið úti á landi gæti farið að hagnast og við skulum vona að það takist á næstu árum.