Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 16:19:02 (2598)

2001-12-06 16:19:02# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[16:19]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef maður skoðar áhrif eignarskattsins, tekjuskattsins, arðsins og fjármagnstekjuskattsins saman, það er það sem skiptir máli, þá kemur í ljós að skattlagning á íslenskt atvinnulíf hefur verið býsna þung.

Menn tala oft um Þýskaland. Staðan var þannig í Þýskalandi, og var þannig fram að skattaumbótum sem flokksbræður hv. þm. stóðu fyrir, að það mátti draga tekjuskatt fyrirtækjanna frá þegar menn reiknuðu út fjármagnstekjuskatt einstaklinganna. Síðan var þessu breytt og jafnvel Þjóðverjar, með alla sína skattpeninga, eru að reyna að komast út úr þessari háu skattlagningu á atvinnulífið.

Varðandi tryggingagjaldið þá er það vissulega íþyngjandi og enginn sem ber á móti því. En við segjum að þrátt fyrir hækkun tryggingagjaldsins þá vegi skattalækkanirnar á eignarskattinum og lækkun á tekjuskattinum það upp og gott betur.

Síðan er hún alveg ótrúleg þessi tillaga Samfylkingarinnar um að hafa mismunandi eignarskatt á fyrirtæki og eigið fé fyrirtækja eftir samsetningu nafnverðs hlutafjár, eftir því hvort það er stærri eða minni hlutur. Ég get bara ekki skilið af hverju þeim í Samfylkingunni dettur þetta í hug.

Varðandi yfirfærsluna þá er ég einfaldlega að lesa þetta ágæta nál., sem er vandað og vel unnið. Hér er verið að tala um að 1. minni hluti vari alvarlega við afleiðingum þessara breytinga. Öll umræðan í nefndinni af hálfu nefndarmanna Samfylkingarinnar gekk einmitt út á að vara mjög sterklega við þessu, amast við þessu og reyna að finna breytingunum allt til foráttu. Þegar rætt var um réttarstöðu þeirra sem þarna eiga í hlut þá var alltaf verið að reyna að gera það tortryggilegt að menn stunduðu atvinnurekstur á Íslandi.