Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 16:23:22 (2600)

2001-12-06 16:23:22# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, RG
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[16:23]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég hef hlýtt á þessa umræðu af mikilli athygli og mér sýnist að bæði umræða og tillögur stjórnarmeirihlutans sýni gjörólíka lífssýn miðað við það sem við byggjum á umræðu okkar og tillögur. Við erum að tala fullkomlega í kross.

Þessi umræða dregur fram áherslur íhaldssamfélagsins. Við vitum að íhaldssamfélag er alltaf að gæta ákveðinna hagsmunahópa. Við vitum líka að í samstarfi þarf samstarfsflokkurinn alltaf að vera á verði og standa á sínu. Við sjáum á þeim tillögum sem hér eru kynntar að fjarvera annars stjórnarflokksins í svo ríkum mæli sem raun ber vitni er til marks um að á þessum tíma eru ekki allir ánægðir.

Mér finnst, virðulegi forseti, að aðgerðir stjórnarmeirihlutans undirstriki þau viðhorf að það sé allt í lagi að lýðurinn borgi. Þær draga það fram að venjulegur launamaður, litli maðurinn í þessu samfélagi er enn þá breiða bakið. Satt besta að segja er ömurlegt að sjá samhengið á milli tillagnanna um stóru fjárhæðirnar, sem mælast í milljónum og milljörðum, og gramsa svo í pappírunum sem hrúgast á borðin okkar meðan við sitjum yfir þessari umræðu í dag, pappírum sem tengjast málum sem á að ræða síðar svo sem eins og ríkisfjármál. Þegar við gluggum í þá sjáum við að það er fyrst nú á allra síðustu dögum að ríkisstjórnin hefur horfst í augu við staðreyndirnar sem svo lengi hafa blasað við. Það vekur furðu, herra forseti.

Niðurskurðurinn sem birtist í gögnunum sem lögð eru á borð okkar eitt af öðru undirstrikar þetta mjög vel. Hér erum við annars vegar að fjalla um miklar skattalækkanir sem koma stöndugum stórfyrirtækjum fyrst og fremst til góða og tryggja hag þeirra á þeim tíma sem í hönd fer. Hins vegar eigum við eftir að ræða, ef við fáum þá á borðin undir þessari umræðu, pappíra sem sýna smásmugulegan niðurskurð í málum sem eru gífurlega mikilvæg í samfélagi okkar.

Herra forseti. Þótt það sé ekki á dagskrá ætla ég að nefna fjögur atriði. Þrjú þeirra er að finna í frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þar á að sækja peninga í skólana og hækka svokölluð skólagjöld. Það á að heimila að taka upp innritunargjald í framhaldsskólum og þangað á að sækja 38 millj. kr. Það á að heimila að innheimta efnisgjald af nemendum og þangað á að sækja 10 millj. kr. Það á að heimila Kennaraháskólanum að innheimta skrásetningargjald við upphaf skólaárs, þangað á að sækja tæpar 9 millj. kr. Það á að hækka gjald sem greitt er til Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands, svokallað skrásetningargjald. Þangað á að sækja 34 millj. kr. til Háskóla Íslands og heilar 4,9 millj. kr. til nemenda í Háskólanum á Akureyri.

Menn ætla að sækja ýmislegt annað, t.d. er afar saklaust að tala um að hækka sóknargjöld. Það eru svo fáir sem vita hvað sóknargjöld eru og þess vegna er allt í lagi að lækka þau framlög og ná sér í 100 millj. kr. Hvað ætli þessi sóknargjöld geri? Æ, þau standa undir kostnaði við starf organistans í kirkjunni, standa undir starfinu með börnin í kirkjunni. Barnastarf hefur orðið æ þýðingarmeira í kirkjum landsins hin síðari ár. Það er augljóst að í neyð sinni víla menn ekki fyrir sér að kroppa á ólíklegustu stöðum í viðkvæma liði.

Það er stutt síðan ég var í viðtali um kirkjuna mína, Digraneskirkju. Ég var stolt af því að segja frá því að þangað væri hægt að sækja góða friðarstund og til hve mikillar fyrirmyndar starfið þar væri. Þar væri barnastarf mjög öflugt, þar væri ýmislegt á boðstólum fyrir eldri borgara og komið til móts við þarfir þeirra á mörgum ólíkum sviðum og þar færi fram mikið fjölskyldustarf og fræðslustarf, m.a. hjónastarf.

Hvaðan ætli menn fái einhvern smápening í þetta, þó svona starf sé í ríkum mæli unnið í sjálfboðavinnu? Jú, úr þessum dreitli sem kemur til kirkjunnar úr sóknargjöldunum.

Það liggur við, virðulegi forseti, að ég segi við stjórnarmeirihlutann, þegar ég sé þetta kropp í framhaldsskólana og háskólana --- við sem ætlum að gera svo mikið með unga fólkið og vitum að þekkingarsamfélag framtíðarinnar krefst þess að við setjum allt í menntun --- að ég óski þeim til hamingju með lífssýnina sem birtist í þessum pappírum.

Herra forseti. Það sem þessi umræða leiðir betur og betur í ljós er að við verðum að kljást við afleiðingar þess að ríkisstjórnin lét reka á reiðanum þegar hún þurfti og átti að bregðast við. Hún bruðlaði þegar átti að sýna aðhald. Hún taldi fólki trú um að gósentíð væri viðvarandi og hvatti í raun til eyðslu með öllum sínum viðbrögðum í fjölmiðlum í stað þess að vera hreinskilin við þjóð sína og hvetja til aðhalds. Nú þegar það er allt of seint er reynt að klóra sig upp úr brunninum. Það er svo merkilegt að eftirmálin af 11. sept., svo alvarlegur sem sá dagur er í hugum okkar allra, eru gerð að blóraböggli til að breiða á örvæntingarfullan hátt yfir að vandinn er heimatilbúinn. Nú er allt skrifað á breytingarnar eftir 11. sept.

[16:30]

En við vitum betur og það er spurning hvenær þjóðin áttar sig á því sem hefur verið að gerast vegna þess að nú er það að verða æ ljósara og nú eru í raun og veru efnahagsstofnanir hægt og sígandi að viðurkenna að það hefði þurft að gera ýmsa hluti fyrr, þá hefðu aðgerðirnar núna ekki orðið svona harkalegar.

Þess vegna draga tillögur stjórnarmeirihlutans mjög vel fram að vandi fyrirtækja er mjög mikill að óbreyttu og við höfum farið í gegnum það að undanförnu. Þetta hefur komið mjög vel fram í þeim fyrirspurnum sem ég hef lagt fyrir hæstv. utanrrh. um þróun efnahagsmála í kjölfar stækkunar Evrópu, komið mjög vel fram í fyrirspurn og umræðum um hver munurinn verði í löndunum sem taka upp evru og hjá okkur, og það hefur komið skýrt fram að munurinn er gífurlega mikill og að það verður að taka á varðandi umhverfi atvinnulífsins hér til þess að menn geti haldið einhverri samkeppnishæfni fyrirtækjanna sem eru á Evrópumarkaði. Við erum búin að vita þetta lengi, við erum búin að vera að ræða þetta í allt haust.

En það er eitthvað að í umfjöllun efnahagsmála hjá okkur. Gengislækkunin er sennilega að verða 30% frá upphafi ársins í fyrra. Það er mjög erfitt að átta sig á því hvernig hún hefur í raun þróast. Við höfum viðmiðunina gagnvart dollar en um mitt árið núna var ljóst að hún var orðin u.þ.b. 25% frá upphafi ársins á undan og nú mælist hún mjög hátt frá upphafi þessa árs. Það er því ekki ósennilegt að það sé frekar nær 30%. Verðbólgan er komin úr öllum böndum á þessu hausti og við erum með ofurvexti, þá hæstu á samkeppnissvæðum íslenskra fyrirtækja og þetta erum við búin að vera að ræða, bara í öðru samhengi. Og það er alveg ljóst að að taka verður á umhverfi fyrirtækjanna hér til að bjarga því sem bjargað verður.

En þetta þurfti ekki að verða svona slæmt. Það er sama hvert við lítum að haldið hefur verið öðruvísi á málum en á að halda á þeim hér og nú, þegar í óefni er komið. Það er vegna þess að þannig hefur verið flotið að feigðarósi að Alþingi verður að lækka skatta fyrirtækja og þess vegna gerir líka Samfylkingin tillögu þar um þó að hún vilji fara aðrar leiðir en stjórnarmeirihlutinn til þess að reyna að rétta við samkeppnisstöðuna fyrir þau fyrirtæki.

Þess vegna verður ríkið af umtalsverðum tekjum núna, einmitt þegar afleiðingar efnahagsstefnunnar eru að skella á venjuleg heimili, og reyndar á fyrirtækin vegna þess að fyrirtækin vita, Samtök atvinnulífsins vita það og Samtök iðnaðarins vita að þessi vandi er heimatilbúinn vegna aðgerðaleysis stjórnarflokkanna missirum saman.

Það er alveg ljóst að þessi efnahagsstaða skapar ekkert umhverfi fyrir nýja vaxtarbrodda eins og hér hefur komið fram, fyrir ný fyrirtæki sem ekki eru í útflutningi en þurfa að sækja sitt til útlanda. Það er náttúrlega alveg dæmafátt að hugsa til þess hvernig mismunurinn er að verða í skattheimtu í okkar litla landi. Ég ætla að koma aðeins að því síðar.

En áður langar mig að bregðast örlítið við af því það var svo athyglisvert að hlusta á orðaskipti hv. þm. Péturs Blöndals og hv. þm. Vilhjálms Egilssonar um skattlagningu fyrirtækja og áhrifin af sölu ríkisfyrirtækja. Og þá veltir maður því fyrir sér hvernig umræðan um þessi mál er innan Sjálfstfl., að það skuli vera þannig að þessir þingmenn þurfi að hnippast á hér í ræðustól Alþingis. Að hv. þm. Pétur Blöndal þurfi að skrifa efh.- og viðskn. bréf sem hann óskar sérstaklega eftir að sé tekið fyrir í nefndinni --- með sjónarmiðum sínum. Og auðvitað erum við öll minnug þess að hv. þm. Pétur Blöndal átti sæti í efh.- og viðskn. en sagði sig úr nefndinni. Ég ætla ekkert að blanda mér í þessi orðaskipti en auðvitað tökum við eftir þeim og veltum vöngum yfir samráðinu og vinnunni í þeim stóra flokki.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson, félagar mínir, hafa gert því skil í ræðum sínum að annars vegar hækkun tryggingagjaldsins og hins vegar tregðan við að leggja af stimpilgjaldið í áföngum hitta litla manninn afskaplega illa fyrir. En það er eins og annað í þessum tillögum.

Ég nefndi að ég ætlaði aðeins, áður en ég færi nánar í tillögurnar um skattamál, að staldra við hv. þm. Pétur Blöndal og ræðu hans. Hann orðaði það svo að ef það væri 100% skattur í landinu mundi enginn vinna og þess vegna yrði að finna ásættanlega tölu einhvers staðar á milli 0 og 100%. Hann nefndi það líka að ef skattpíning væri í landinu þá mundu skattsvik aukast, og ef lægri skattar væru á fyrirtæki þá væri aukin nýsköpun, aukin atvinna og meiri fjárfesting. Þetta hljómar afskaplega vel. Þetta er ekki endilega svona. Það hefur ekki endilega alltaf verið svona.

En ég skil a.m.k. áhersluna á gífurlega lækkun skatta á fyrirtæki núna út frá þessu sjónarmiði. En af tilefni þessara orða hv. þm. Péturs Blöndals langar mig að nefna þetta með samfélag. Samfélag snýst ekki bara um hvar maður stoppar ef maður færir fingurinn frá 0 að 100% skatti. Fyrirmyndarsamfélag er þar sem eru gagnkvæmar skyldur og gagnkvæmur réttur og það er hægt að setja eina yfirskrift yfir þessar tvær setningar og hún gæti verið ,,réttlæti``. Skattalögin sem við búum við í dag eru ekki réttlát, það er mjög ójafnt gefið. En skattkerfið, eftir þær breytingar sem stjórnarmeirihlutinn er að gera núna, er enn þá óréttlátara vegna þess að tekjuminnsta fólkið á að bera þyngstu klyfjarnar og það er fullkomlega óásættanlegt, jafnvel þó að það séu erfiðir tímar og jafnvel þó að einhverjum finnist að það sé í lagi að láta minnsta manninn greiða af því að það þurfi að taka á stóru fyrirtækjunum.

En það er ekki úr vegi, herra forseti, að drepa aðeins niður í álit Þjóðhagsstofnunar 4. desember, í fyrradag. Því er spáð að landsframleiðslan minnki um 1% á næsta ári samanborið við 0,3% í þjóðhagsáætlun eins og hún kom fram í haust af því að það eru lakari efnahagsleg skilyrði og meiri samdráttur þjóðarútgjalda en áður var gert ráð fyrir. Og hagvöxturinn hækkar hugsanlega um 0,3%. Viðskiptahallinn verður þrátt fyrir alla umræðu um annað samt 49 milljarðar á þessu ári og menn eru að spá því að hann geti farið niður í 38% á næsta ári. Hækkun neysluvöruverðs á milli áranna 2000 og 2001 er spáð að verði 6,6% og á hverjum lendir það? Og því er spáð að hún verði 6,1% á milli 2001 og 2002. Það er umhugsunarefni inn í þessa umræðu.

Hins vegar er talið rétt að vekja athygli á mikilli óvissu um þessa spá vegna óstöðugleika á gjaldeyrismörkuðum og óvissu um launaþróun. Og ég tel það fullkomlega eðlilegt að Þjóðhagsstofnun setji þann fyrirvara.

Fjórði punkturinn sem Þjóðhagsstofnun gerir að meginatriði er að þegar horft er fram á árið 2002 þá virðast efnahagshorfur góðar og búist er við að efnahagslífið í heiminum hafi náð sér á strik --- takið eftir, með leyfi forseta, ,,í heiminum``. Gleymum því þá ekki að efnahagsstaðan hjá okkur hefur ekki bara hangið saman við það sem er að gerast í heiminum, eins og ég hef þegar getið um, og það megi þess vegna búast við að hagvöxtur geti orðið um 3%. Þá er spáð nær sama hagvexti hér og í heiminum þar sem hlutirnir verða betri ef ráðist verður í áformaðar stórframkvæmdir í áliðnaði --- ef. Ég ætla ekki að segja orð meira um þau mál, en það er þarna stórt ef.

Herra forseti. Ég ætla að víkja örfáum orðum að nál. sem fulltrúar Samfylkingarinnar í efh.- og viðskn. hafa lagt fram. Þeir hafa dregið fram helstu gallana á skattalagabreytingum ríkisstjórnarinnar og ég ætla ekki að endurtaka það en ég ætla bara að árétta það sem þegar hefur komið fram að mesti mismunur í sköttum einstaklinga og fyrirtækja verður 23% með þessum tillögum. Og við eigum að segja það alls staðar sem við komum og muna hvar sem við tökum þátt í pólitískri umræðu að mesti munurinn er 23%. Ég ætla líka að vekja athygli á því að þar sem eru settar fram mjög harðar ádeilur á tillögur stjórnarmeirihlutans þá eru þær allar studdar umsögnum þeirra aðila sem gerst þekkja, ríkisskattstjóra, skattstjóra, sýslumanna o.s.frv.

Í umræðunni fyrr í dag þegar Jóhanna Sigurðardóttir, sem var framsögumaður fyrir Samfylkinguna í þessu máli og mælti fyrir nál. Samfylkingarinnar, ræddi mismun á skattprósentunni var það gert tortryggilegt að sá sem þægi lægri skattprósentu væri að svíkja undan skatti. Hún svaraði því eðlilega um leið og leiðrétti það.

En það sem stendur eftir hér er að velji einstaklingur að hagræða málum sínum og nýta lagaheimildir, hvort sem það er einstaklingur í rekstri með ekkert mannahald sem ætlar að breyta um rekstrarform og fara í 26% skatt eða einkahlutafélag þar sem menn nýta allar lagaheimildir um slíkt, þá kemur út úr því skattahagræðing sem enginn launamaður á möguleika á þó að allt annað sé eins.

Þetta er auðvitað umhugsunarefni fyrir okkur og það er að gefnu þessu tilefni sem við höfum sett fram tillögur okkar með þeim hætti að þær eru raunhæfar og sanngjarnar. Við erum að taka tillit til efnahagsumhverfis sem stjórnarmeirihlutinn hefur skapað hérlendis og reyna að bregðast við honum en á annan hátt en ríkisstjórnin. Þess vegna vek ég sérstaklega athygli á því að löndin í kringum okkur, Svíþjóð, Noregur og Finnland eru með 28% skatt á hagnað fyrirtækja, Sviss er með 28% og Írland með 20%. Að vísu hefur formaður efh.- og viðskn. upplýst að þar geti þetta verið misjafnt, að gömul fyrirtæki geti verið með 20% en splunkuný einhvers eðlis séu með lægra. Það leiðir hugann að því að meira að segja á Írlandi gera menn sér grein fyrir því að ný fyrirtæki geta verið þvílíkir sprotar að skattlagning og með hvaða hætti hún er framkvæmd getur ýtt þeim umsvifalaust út af borðinu, alveg eins og mun gerast með mörg ný fyrirtæki í samfélagi okkar þar sem er mikill rekstur en litlar tekjur, af því menn fara ekki í tryggingagjaldið í stað þess að lækka tekjuskattsprósentuna.

[16:45]

Það er því ljóst að við erum með þeim lægstu og mætti spyrja hvort við verðum að vera fyrir neðan öll önnur lönd í skattprósentu fyrirtækja til þess að erlend fyrirtæki yfirleitt hugi að því að fjárfesta í íslensku atvinnulífi. Auðvitað er svarið nei.

Fyrirtæki í útlöndum eða fjárfestar eru ekki endilega að horfa á það hvort að á Írlandi finnist tegund fyrirtækja sem lýtur lögum um lægri skattprósentu en finnst hér. Það sem fyrirtækin eru að gá að og við verðum að bjóða upp á er stöðugleiki. Stöðugleiki, orðið sem var notað svo mikið í fyrra og svo mikið í notað hittiðfyrra. Það trúðu því allir og fólk fór og keypti íbúðir og hús og gerði áætlanir út frá tekjunum sínum og innkomu fjölskyldunnar í stöðugleikanum. En núna hefur allt breyst og nú er það ekki tiltökumál sýnist mér þó mánaðarútgjöld fjölskyldna sem þannig fóru skipulega í málin út frá eigin tekjum og stækkuðu við sig eða komu sér þaki yfir höfuðið, hækki um 12--15 þúsund á mánuði, ekki tiltökumál. Það er enginn að tala um það fólk, ekki þeir sem hafa talað af hálfu stjórnarmeirihlutans. Nei, það er nefnilega stöðugleikinn sem fólkið í landinu vill og það er stöðugleikinn sem útlendingar þurfa til að þora að koma hingað. Þeir treysta ekki þessu landi.

Það er líka fróðlegt að skoða svörin, og ég get nefnt það af því ég hef verið fús að fræðast um afleiðingar af upptöku evrunnar fyrir Ísland og ég hef spurt af því að ég hef ekki gert upp hug minn og af því að mér finnst mikilvægt að fá að heyra hvað felist í ákvörðunum og breytingum í Evrópu til þess að ég eigi í fyllingu tímans auðveldara með að taka ákvarðanir fyrir mig. Mér finnst athyglisvert að í öllum svörunum hefur komið fram hvað fyrirtæki standi miklu verr, eins og ég hef farið hér yfir. Það er líka athyglisvert og menn ættu að skrifa það hjá sér því að stundum held ég að þeir viti það ekki, að ef við værum í þessum félagsskap, sem við náttúrlega erum alls ekki búin að ákveða hvort við viljum vera í, þá mundi ekki þýða að vera með verðtryggingu. Nei, þá yrði maður að haga öllum efnahagsaðgerðum sínum út frá því. Þetta er umhugsunarefni.

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að fara svolítið nánar ofan í það sem mér hefur fundist skipta mestu máli varðandi nefndarálitið sem hér hefur verið kynnt. Ég ætla ekki að gera það vegna þess að ég ætla ekki að flytja miklu lengri ræðu. En ég ætla að nefna tvennt, t.d. það sem kemur hér fram um að mundi gerast ef stóru fyrirtækin með samningana --- af því að í umsögn Þjóðhagsstofnunar kom fram að hægt væri að ná þessum hagvexti ef áformaðar stórframkvæmdir yrðu í áliðnaði og það dregur auðvitað athyglina að slíkum stórfyrirtækjum og þau eru með sérstaka samninga og skattasamninga --- mundu gera kröfu um að fá endurskoðaða samninga og fá að greiða skatta eins og önnur fyrirtæki í landinu. Það mundi breyta þeim tölum sem við erum að tala um alveg gífurlega. Þá værum við bara í Reykjanesi að breyta tölunum sem hér hafa verið kynntar um liðlega 500 millj. Það eru því mörg ,,ef`` í þessu máli, herra forseti.

Það er með ólíkindum, þegar verið er að taka ákvarðanir eins og þær sem eru teknar þessa dagana, að menn skuli ekki skoða það að stokka skattana upp með tilliti til launafólksins í þessari stöðu. Ég ætla að enda mál mitt á að minnast á dæmið sem Sveinn Jónsson setti upp í grein sem Sverrir Hermannsson vitnaði í fyrr í dag. Ég hef farið yfir þessa grein og ætla að ljúka máli mínu á þeirri umfjöllun, af því það er ekki alltaf að þeir sem á okkur hlýða við umræðuna, skilji þetta flókna tal um skattumhverfið. Þess vegna ætla ég, með leyfi forseta, að lesa hér örfáar línur sem skýra muninn á þessum tveimur, Jóni og Pétri, sem lifa hvor í sínu skattumhverfinu þótt kannski sé allt annað eins. Dæmið sem Sveinn Jónsson sýnir fram á mismununina sem stefnir í með því að þeir sem eru í eigin rekstri, einstaklingar, geti skipt yfir í öðruvísi skattaform. Hann segir, og enginn efast um að Sveinn Jónsson hafi grundvallarþekkingu á þessum málum:

,,Jón er launþegi enda hefur verið lítið um það á hans starfssviði að menn gætu boðið fram vinnu sína sem verktakar. Auk starfa fyrir aðallaunagreiðanda vinnur hann töluverða aukavinnu fyrir aðra. Ætla má að tekjur hans á árinu 2001 verði að meðaltali 550.000 kr. á mánuði.

Pétur hefur starfað sem verktaki og fært tekjur sínar í rekstrarreikning og á skattframtal sem einstaklingur með rekstur samkvæmt núgildandi reglum. Hann hefur því greitt sama hlutfall í skatt af tekjum sínum og Jón. Pétur er himinlifandi yfir framkomnum tillögum í skattamálum. Hann er þegar búinn að ákveða að stofna einkahlutafélag með 500.000 kr. hlutafé og verður hann eini hluthafinn. Pétur verður jafnframt eini starfsmaður félagsins enda hefur hann ekki haft starfsmenn í þjónustu sinni til þessa. Hann áætlar að tekjur sínar að frádregnum rekstrargjöldum verði að meðaltali 550.000 kr. á mánuði á árinu 2001. Sem rekstraraðili þekkir Pétur reglur skattyfirvalda um svokallað reiknað endurgjald og mun framvegis sem hingað til reikna sér þau lágmarkslaun sem fram koma í reglunum varðandi hans starfsgrein og starfsumfang. Þetta lágmark er 330.000 kr. á mánuði á árinu 2001. Ef fyrirhugað skatthlutfall væri í gildi á árinu 2001 mundi hann því greiða 26,2% af 220.000 kr. á mánuði (550.000 mínus 330.000) í stað um 38%.

Ef hinar fyrirhuguðu reglur væru í gildi á árinu 2001 mundi Pétur greiða rúmlega 300.000 kr. minni tekjuskatta en Jón enda þótt tekjur þeirra séu þær sömu.``

Sveinn Jónsson endurskoðandi spyr:

,,Fær slík mismunun staðist? Væru Jón og Pétur jafnir fyrir lögum ef svona væri að farið?``

Herra forseti. Hann segir líka:

,,Þeir Pétur og Jón, sem fjallað er um hér að framan, hafa vissulega góðar tekjur og spyrja má hvort umrædd mismunun muni ekki einungis snerta skatta fámenns hóps hátekjumanna. En þeir félagar Pétur og Jón hafa nú ekki hærri laun en það að þeir hefðu ekki greitt svokallaðan hátekjuskatt af þeim fjárhæðum á tekjuárinu 2000 enda bætast ekki við neinar tekjur frá maka. Þeir hefðu því ekki komist í hóp 15.144 skattgreiðenda sem greiddu hátekjuskatt af tekjum ársins 2000. Lögð skal áhersla á að fyrirhuguð mismunun verður enn meiri af fjárhæðum sem lenda í hátekjuskatti heldur en dæmið um Jón og Pétur sýnir.``

Herra forseti. Ég ætla ekki að lesa meira úr þessari grein. Ég hvet þingmenn til að skoða hana. En ég get spurt eins og Sveinn Jónsson spyr lesanda sinn:

,,Hefur þú, lesandi góður, aðstöðu til að komast í forréttindahópinn?``

Herra forseti. Ég legg mikla áherslu á að Samfylkingin hefur farið aðra leið en stjórnarmeirihlutinn í skattatillögum sínum. Við í Samfylkingunni höfum lagt mikla áherslu á að koma til móts, bæði við launþegana og þá sem eru í rekstri en hafa ekki miklar tekjur. Ég vona, af því þetta mál á að fara inn í efh.- og viðskn. á milli umræðna, að það verði tekið til greina að gera breytingar á þeim tillögum sem nú liggja fyrir.