Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 18:27:51 (2609)

2001-12-06 18:27:51# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[18:27]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég tók eftir því að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, formaður efh.- og viðskn., svaraði hér engu um tryggingagjaldið, sem ég spurði hann um og það hvernig tryggingagjaldið, samkvæmt þeim töflum sem liggja fyrir í öllum gögnum sem efh.- og viðskn. hefur fengið, mun íþyngja atvinnustarfsemi á landsbyggðinni. Það mun íþyngja starfseminni þar. Hins vegar kýs hann að ræða hér um hið hóflega auðlindagjald sem Sjálfstfl. samþykkti nýlega á fundi sínum.

Ég ítreka spurningu mína um tryggingagjaldið. Ég hef farið yfir hvernig það kemur út í okkar kjördæmi, Norðurl. v., og hvernig það mun létta skattaálögur á fyrirtækjum í Reykjavík og á Reykjanesi en mun gera það að verkum að rekstrarskilyrði milli fyrirtækja á þessum svæðum verða gjörólík. Hann hefur heldur ekki svarað því sem við töluðum um áðan, sem líka kom frá efh.- og viðskn. á árum áður, um breytingar á þungaskattskerfinu sem hafa haft það í för með sér að þungaskattur hefur hækkað um 45% frá árinu 1998.