Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 18:33:48 (2614)

2001-12-06 18:33:48# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[18:33]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru nú svo barnalegir útúrsnúningar eða tilraunir til barnalegra og einfeldnislegra útúrsnúninga að það er eiginlega varla hægt að taka þátt í að ræða þetta hér. Það er náttúrlega í framsöguræðu og nefndaráliti sem hin efnislega afstaða er reifuð. En síðan fellur hv. þm. í þá gryfju að vegna þess að tæknilega er um frestunartillögu að ræða því flytja þarf brtt. við það frv. sem er á dagskrá hverju sinni. Þá liggur það auðvitað þannig að við leggjum til frestun á öllum pakkanum nema tveimur jákvæðum þáttum sem við viljum láta ganga í gildi, sem er að hætta skattlagningu húsaleigubóta og að tekjuskattslækkunin á móti útsvarshækkun sveitarfélaga komi til framkvæmda. Að öðru leyti leggjum við til að þessum skattapakka sem slíkum sé öllum frestað. Þingtæknilega gerist það þannig að þá er flutt tillaga á þessum nótum.

Hv. þm. er að vísu ekki mjög þingreyndur og honum fyrirgefst alveg að hafa ekki áttað sig á þessu að svona gerist þetta, en hann er læs, hv. þm. ætti að vera læs og ætti að hafa sæmilega heyrn og þess vegna er eiginlega með ólíkindum að hann skuli reyna efnislega útúrsnúninga af því tagi sem hann var að fara með áðan.