Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 18:35:09 (2615)

2001-12-06 18:35:09# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[18:35]

Kristján L. Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt, ég hef ekki hina miklu þingreynslu hv. þm. sem kýs að tala þannig við okkur nýliðana. Það er út af fyrir sig allt í lagi. Ég erfi það ekkert.

En ég spurði bara: Hvað á Vinstri hreyfingin -- grænt framboð við með þessari brtt.? Og það kom fram hérna áðan.

Þá vil ég leyfa mér að spyrja hv. þm.: Hefði ekki bara verið betra að hér kæmi frávísun á skattalagapakkann? Hér er brtt. um að lögin taki gildi einu ári seinna heldur en ríkisstjórnarflokkarnir leggja til. Ja, það getur vel verið að menn eigi eftir að læra meira á þeim árum sem hv. þm. hefur vonandi lært, en ég þykist vita að hér hefði verið eðlilegra að menn hefðu þá komið með frávísun og þessum skattalagapakka væri vísað frá, fyrir utan húsaleigubæturnar og tekjuskattslækkun upp á 0,33%.