Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 18:36:10 (2616)

2001-12-06 18:36:10# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[18:36]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristján L. Möller hóf ræðu sína á harðri ádeilu á þingmenn fyrir að sinna þessari umræðu lítið og hafa ekki á henni áhuga, samt er hún búin að standa í nokkra klukkutíma og ég verð að minna á að 1. umr. stóð í sex klukkutíma og þar töluðu þingmenn frá öllum stjórnmálaflokkum hér á þingi.

Síðan fór hv. þm. mörgum orðum um landsbyggðina og hversu illa væri farið með hana og fór að tala um að Eimskip hefði hækkað gjaldskrána og eitthvað fleira í þeim dúr, sem er reyndar ekki á forræði ríkisstjórnarinnar, og sagði svo eitthvað á þá leið að nú yrði að fara að gera eitthvað til að létta skattbyrðinni af landsbyggðinni. Ég verð þá að minna á í því sambandi að nýlega var samþykkt að breyta fasteignamatinu þannig að húsnæðið á landsbyggðinni yrði ekki metið með sama hætti og á höfuðborgarsvæðinu, sem þýðir það að atvinnurekandi t.d. á Raufarhöfn sem á 300 fermetra iðnaðarhúsnæði borgar kannski 1/3 af því sem atvinnurekandi borgar af sambærilegu húsnæði í Reykjavík. Þetta er auðvitað til stórkostlegs hagræðis fyrir atvinnulífið á landsbyggðinni og einstaklingana að sjálfsögðu líka.

Mér fannst hv. þm. líka allt of fastur í því sem honum fannst neikvætt. Hann sá ekki neitt jákvætt í frv., ég ætla aðeins að drepa á það í síðara andsvari mínu, því ræðutíminn er búinn.