Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 19:08:38 (2624)

2001-12-06 19:08:38# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[19:08]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að standa í einhverju karpi enda er hv. þm. ekki vanur því að karpa hér í ræðustól um hvort hann sé ánægður í meginatriðum eða öllum atriðum að undanskildu einu atriði eða hvernig menn vilja leggja það upp.

Hins vegar vil ég mótmæla því sem kom fram hjá hv. þm. um landsbyggðina og höfuðborgarsvæðið. Þær einu tölur sem liggja fyrir um áhrif hækkunar tryggingagjaldsins og lækkunar tekjuskattsins sýna að þau áhrif éta sig upp í Vestmannaeyjum, í Norðurlandskjördæmi eystra og Norðurlandskjördæmi vestra. Það er heildarniðurstaðan fyrir þessi svæði. Þetta eru tölur frá ríkisskattstjóra, engum öðrum, þannig að ég er að gera tölur hans að mínum. Það liggja ekki neinar aðrar tölur eða rannsóknir fyrir. Ég er einfaldlega að draga það fram í umræðuna að opinberar stofnanir og opinberir embættismenn hafa komist að þeirri niðurstöðu að þessi verða áhrifin.

Ég vil líka mótmæla því að stjórnarandstaðan sé að tala eitthvert svartnætti inn í þessa þjóð. Stjórnarandstaðan hefur einfaldlega verið að reyna að tala um hlutina eins og þeir eru. Það er alveg ástæðulaust að halda áfram þeirri umræðu. Við vitum hver þróun hefur verið á genginu. Við vitum hver þróun hefur verið á vöxtunum. Það er dálítið langsótt eftir tíu ára samfellda setu í Stjórnarráðinu að kenna stjórnarandstöðunni um, að líklega sé það --- hvað eigum við að segja --- sálarástandið sem að einhverju leyti, sem er rétt, hafi fengið eitthvert áfall og hugsanlega sé þetta allt saman heimatilbúið. Ég skal ekkert um það segja. En það jaðrar við karp og er þingmanninum ekki sæmandi því hann er ekki vanur að stunda karp í þessum ræðustól, að tala um að stjórnarandstaðan eigi allan þátt í því að menn hafa verið að draga saman seglin í atvinnulífinu.