Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 21:41:01 (2637)

2001-12-06 21:41:01# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, Frsm. 2. minni hluta ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[21:41]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég er sammála hæstv. fjmrh. að það er gott að búa á Íslandi. En það var ekki aðeins það sem hann sagði. Það er gott að búa á Íslandi, sagði hæstv. ráðherra, vegna þess að hér borgum við lága skatta. Annars mundu allir flytja úr landi. Ég hef heyrt hv. þm. Karl V. Matthíasson leiða þessa hugsun áfram með bros á vör að ef við borguðum enga skatta, þá mundu sennilega allir flytja til Íslands. Þetta er það sem einhvern tíma var kallað Sahara-pólitík, eyðimerkurpólitíkin, vegna þess að í Sahara er ágætt að vera en þar er heldur ekki neitt. Ef við þurrkum út allt mannlegt samfélag, ef við þurrkum burt allt það sem við gerum í sameiningu og fjármögnum saman, þá er ekkert sérstaklega gott að vera hér. Staðreyndin er sú að íslensku velferðarþjónustunni er um margt ábótavant og hana þyrfti að bæta. Þegar almenningur á Íslandi er spurður um hvort hann sé reiðubúinn að kosta einhverju til, þá er yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar reiðubúinn að gera það.

Hér talaði fyrr í dag hv. þm. Kristján L. Möller og hann saknaði mín við umræðuna. Því miður var ég fjarri þá stund sem hann ræddi skattapakka ríkisstjórnarinnar en þar sem hann óskaði eftir skýringum á afstöðu minni ætla ég að verða við beiðni hans.

Hv. þm. var að furða sig eitthvað á þeirri tillögu sem ég hef sett fram og gengur út á að skjóta framkvæmd skattapakkans á frest að undanskildum tveimur ákvæðum hans, tveimur greinum. Í fyrsta lagi lækkun almenns tekjuskatts um 0,33% og í öðru lagi afnáms skattlagningar á húsaleigubætur. Ég er fylgjandi síðara atriðinu og hitt lít ég á sem hluta af stærri heild. Áður var um það samið að tekjuskattur yrði færður niður til samræmis við þá ákvörðun Alþingis að hækka heimild sveitarfélaganna til að taka útsvar sem þessu nemur þannig að þetta ber að skoðast í þessu samhengi. Þess vegna vil ég fá þetta til framkvæmda þegar í stað.

Hinu vil ég skjóta á frest, ekki vegna þess að ég vilji fá það í framkvæmd heldur vegna þess að ég vil fá umræðu um skattkerfisbreytingar almennt einmitt vegna þess að ég er mjög ósáttur við þær breytingar sem felast í skattapakka ríkisstjórnarinnar. Reyndar er ég mjög ósáttur við þær breytingar sem orðið hafa á skattkerfinu, ekki bara á síðasta ári eða þar síðasta heldur allan tíunda áratuginn. Þar hefur það verið að gerast sem nú er að ágerast að skattar eru lækkaðir á þá sem hafa mestar tekjur, eiga mestar eignir og reka fyrirtæki.

[21:45]

Fyrir rúmum 10 árum, árið 1988, voru tekjuskattar á fyrirtæki 50%. Það ár voru tekjuskattar á einstaklinga 35,20%. Núna hefur þetta snúist við. Tekjuskattar einstaklinga eru komnir í 38,76% en tekjuskattar fyrirtækjanna eru komnir niður í 30%. Hvenær byrjaði þetta að gerast? Hver var byrjunin, hvenær hófst þessi öfugþróun? Hvenær skyldi hún hafa hafist? Hún hófst á árinu 1992 og fyrir alvöru árið 1993. Þá voru tekjuskattar fyrirtækjanna komnir niður í 33% en tekjuskattar einstaklinga voru þá komnir yfir 41%. Á sama tíma og þetta gerðist voru lífskjör almennings skert á ýmsan annan hátt. Ég man ekki gjörla hvort það var við fjárlögin 1992 eða 1993 að barnabætur voru skornar niður um hálfan milljarð kr., 500 millj. kr. Það var gert í einu vetfangi og þar hófst sú öfugþróun hvað þær snertir sem hefur leitt til þess að barnabætur eru enn rýrari að verðgildi nú en þær voru fyrir 10 árum. Á þessum árum var álögum hlaðið á sjúklinga. Starfsfólk heilsugæslustöðvanna var sent á námskeið til að kenna því á sjóðsvélar og innræta sjúklingum á langlegudeildum sjúkrahúsanna kostnaðarvitund. Muna menn eftir þessu? Rekur menn minni til þessa?

Vegna þess að hv. þm. Kristján L. Möller er að reyna að mála þessa umræðu pólitískum flokkslitum og þá vil ég spyrja hv. þm. Kristján L. Möller: Hverjir skyldu þá hafa setið í ríkisstjórn og í hvers hendi skyldi niðurskurðarhnífurinn hafa verið?

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að um þessar aðgerðir var ekki fullkomin sátt í ríkisstjórn. Svo allir séu látnir njóta sannmælis hef ég trú á því að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hafi staðið vel vörðinn og reynt að vinna gegn þessum ósköpum. En þetta eru bara staðreyndir lífsins. Ef hv. þm. Kristján L. Möller hefur einhverjar efasemdir um hvað mér finnst vera rétt og rangt í skattamálum skal ég upplýsa hann um það.

Ég er andvígur því, og það á jafnframt við um Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð, að fara þá leið sem þarna var farin, að innræta sjúku fólki og fátæku kostnaðarvitund. Ég er andvígur því að létta sköttum af fyrirtækjum og hátekjufólki og hlaða klyfjunum á almennt launafólk. Einmitt þetta er að birtast í þeim skattapakka sem við stöndum nú frammi fyrir. Ein af þeim ráðstöfunum sem grípa á til er að létta sköttum af hátekjufólki um 600 millj. kr. með því að færa hátekjuskattsviðmiðið upp um 15%, úr 280 þús. í 322 þús. Hverjir eru það í hópi Íslendinga sem greiða þennan svokallaða hátekjuskatt? Það er tíundi hluti þjóðarinnar. Ef við deilum niður skattaávinningnum á þennan tíunda hluta þjóðarinnar, hvað skyldi hver þeirra fá í sinn hlut? Hann fær um 40 þús. kr. Hver niðurgreiðir þennan hátekjuskatt, eða þessa skattaívilnun öllu heldur? Hver skyldi gera það? Hvað hefur gerst í skattkerfinu sem býr til þessa niðurgreiðslu, hefur hana innbyggða? Jú, það eru öryrkjar og það er tekjulægsta launafólkið. Það er að niðurgreiða þetta.

Fyrir fáeinum árum var það svo á Íslandi að öryrkjar sem aðeins fengu tekjur frá almannatryggingum greiddu enga skatta. Þessi hópur greiðir nú á ári hverju um 70 þús. kr. í skatt. Síðan verður hæstv. fjmrh. reiður þegar menn amast við þessu og benda á að ríkisstjórnin standi vörð um þá sem best standa að vígi í þjóðfélaginu en skerði hlut hinna. Þetta eru staðreyndir sem tala sínu máli.

Aðeins um þær áherslubreytingar sem ég vildi sjá og er tilbúinn að taka til umræðu. Hæstv. fjmrh. benti réttilega á að þetta væru vangaveltur af minni hálfu en ég er opinn fyrir þessum hugsunum: Mér finnast ákveðin rök fyrir því að skattleggja fólk þegar það hefur tekjur af eignum sínum í stað þess að leggja höfuðáherslu á að skattleggja tekjurnar einar. Ég benti á að þegar fjármagnstekjuskatturinn var tekinn upp var þessu sjónarmiði haldið mjög á lofti. Hæstv. fjmrh. segir að láðst hafi að lækka eignarskattinn á þessum tíma eða ekki verið um það samstaða. Svo kann vel að vera í einhverjum hópi en ég er ekki tilbúinn að fallast á að þarna séu komnar einhverjar fastar stærðir.

Þótt ég sé tilbúinn að skoða þetta, sé opinn fyrir þessum hugmyndum og sjái fyrir þeim ákveðin rök, sé ég líka ákveðna galla. Ég sé ákveðna ágalla á þessu því að staðreyndin er sú að mikil brögð eru að því að fólk svíki undan skatti, komi sér hjá því að greiða tekjuskattinn. Stundum hefur verið bent á að þeir einir greiði tekjuskatt að fullu sem eigi ekki annarra kosta völ. Ég ætla ekki að gera því skóna að það margir svíki undan skatti en það eru greinilega talsverð brögð að því. Þá er það náttúrlega svo að eina augljósa leiðin til að ná til þeirra sem hafa miklar eignir og tekjur en skjóta sér undan skattinum er að skattleggja eignirnar. Þetta eru þeir ágallar sem ég sé á kerfinu.

Síðan er spurningin aftur sú hvort menn eigi að smíða skattkerfi sem byggist á því að fólk sé óheiðarlegt. Það er svo önnur spurning en þetta er nokkuð sem við þurfum að hafa í huga.

Eins kom það sjónarmið upp í umræðu hæstv. fjmrh. varðandi breytingu á rekstri einstaklinga yfir í hlutafélög, sem auðvitað er alveg rétt, að það er varasamt að smíða kerfi með hliðsjón af því að fólk sé almennt óheiðarlegt. Engu að síður er innbyggður þarna ákveðinn hvati, ákveðin gulrót, til að koma sér undan skattlagningu, einfaldlega vegna þess að skattar á hlutafélög eru miklu lægri en skattar á tekjur. Í framhaldi af þessu vaknar sú spurning hvort ekki sé heppilegast fyrir skattkerfið að hafa sem mest samræmi á milli tekjuskattsins, rekstrarskatts og fjármagnsskatts.

Mér finnst þetta allt þess efnis að það þurfi að ræða þessa hluti og skoða. Mér finnst afskaplega sorglegt og miður að ríkisstjórnin skuli ætla að reyna að keyra þetta fram, að lögfesta þessar breytingar, þessar ranglátu og, að mér finnst, mjög vanhugsuðu tillögur. Það er ekki nóg með að þær séu ranglátar heldur held ég að þær séu líka mjög óskynsamlegar. Mér finnst að við þurfum að taka mið af varnaðarorðum sem við heyrum frá ýmsum sérfræðingum í skattkerfinu. Mér finnst allt of margir vara okkur við til að við tökum ekki þau aðvörunarorð til greina. Þetta er ástæðan fyrir því að ég legg það til að þessum skattapakka í heild sinni verði skotið á frest. Mér finnst hins vegar ekki stætt á því að lækkun almenns tekjuskatts og afnámi skattlagningar á húsaleigubætur verði frestað. Þetta er skýringin á þeirri tillögu sem ég hef sett fram.