Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 22:00:15 (2640)

2001-12-06 22:00:15# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[22:00]

Kristján L. Möller (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef svo sem ekki miklu við þetta að bæta nema því sem ég gleymdi áðan. Ég mundi aldrei leggja til að gildistökudegi yrði frestað á máli sem ég er á móti. Ég mundi samþykkja annan gildistökudag á máli sem ég er sammála, sem ég ætla að styðja, ef ég hef aðra skoðun um gildistökudaginn. Á þessu er mikill munur.

Hv. þm. Þetta snýst ekki um það hver sé að sigra eða slá keilur. Þetta snýst ekki um það. Ég er einfaldlega að benda á þann mismun sem er í þeim tvennum gögnum sem koma frá 2. minni hluta efh.- og viðskn., hv. þm. Ögmundi Jónassyni, þingflokksformanni Vinstri grænna.

Þegar ég las þessi tvö skjöl, brtt. og nefndarálitið, gat ég ekki séð að þetta væri frá sama aðilanum. Annars vegar segir brtt., eins og hér kemur skýrt fram:

,,Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2003`` --- ríkisstjórnin er með 2002 --- ,,og koma til framkvæmda við álagningu á árinu 2004`` --- ríkisstjórnin er með 2003.

Í nefndarálitinu stendur, sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, gagnrýndi mig fyrir að ég hefði ekki verið búinn að lesa. Það er ekki rétt. Ég var búinn að lesa þetta gagn. Þar er talað um að fresta. Á þessu hlýtur að vera mikill munur.

Herra forseti. Mér finnst þegar hv. þm. Ögmundur Jónasson ræðir um þetta núna að við séum næstum því sammála um að eðlilegra hefði verið, miðað við þetta sem hér kemur fram --- Vinstri hreyfingin -- grænt framboð vill styðja tvo liði, eins og við höfum farið yfir, húsaleigubæturnar og tekjuskattslækkunin upp á 0,33% --- að leggja til að öðrum þáttum þessa frv. yrði vísað til ríkisstjórnarinnar eða það hreinlega fellt. En það er ekki hér í og mig langar bara til að heyra það þá héðan úr þessum ræðustól frá hv. þm., ef þetta er réttur skilningur, hvort hér sé um einhver mistök í gögnum að ræða, þ.e. að ekki er samræmi milli brtt. og nefndarálits. Ég tel að svo sé, að ekki sé samræmi þar á milli.