Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 22:02:30 (2641)

2001-12-06 22:02:30# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, Frsm. 2. minni hluta ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[22:02]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ef menn lesa þessar skýrslur og tillögur með einu auga í miðju enni og líta hvorki til hægri né vinstri, hlusta á engin rök, þá komist menn að sömu niðurstöðu og hv. þm. Kristján L. Möller. Ef menn hins vegar hlusta á þær röksemdir sem búa að baki munu þeir komast að raun um að ég er ekki að leggja til að við samþykkjum skattapakka ríkisstjórnarinnar að ári.

Ég er búinn að reyna að gera grein fyrir þessu sjónarmiði og skýra það og ég er alveg reiðubúinn að koma hér aftur í ræðustól og halda um þetta langa tölu. Ég er líka tilbúinn að halda langa tölu um skattkerfisbreytingar á síðasta áratug og afstöðu mína til þeirra, hvernig hún er nákvæmlega hin sama nú og þegar menn voru að ganga á hlut launafólks og þeirra tekjulægri í þjóðfélaginu um miðjan síðasta áratug. Ég er alveg tilbúinn til að gera það. En ég held sannast sagna að flestir geri sér grein fyrir hvaða meining búi að baki þessari tillögu.