Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 22:04:27 (2642)

2001-12-06 22:04:27# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, Frsm. 1. minni hluta JóhS
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[22:04]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Í þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað í allan dag hefur kristallast mjög munur á skattastefnu stjórnarflokkanna og Samfylkingarinnar. Skattastefna Samfylkingarinnar byggist, eins og ég sagði í dag, á jafnræði, sanngirni og hlutleysi gagnvart skattlagningu og skattformum og tryggir um leið starfsskilyrði og samkeppnishæfni fyrirtækja. Skattastefna ríkisstjórnarflokkanna gengur í þveröfuga átt, er vanhugsuð og hentar fyrst og fremst stórfyrirtækjum í þéttbýlinu.

Herra forseti. Ég hygg að það sé einsdæmi sem fram kom í ræðu hæstv. fjmrh., að farið sé út í svona stórfelldar skattbreytingar sem svo mikil áhrif hafa á tekjur sveitarfélaganna án þess að rætt hafi verið við þau stakt orð um þær.

Ég minnist þess þegar að ég var í ríkisstjórn mátti ekki hreyfa fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga, varla um nokkrar milljónir, án þess að koma þyrfti til samráðs milli ríkis og sveitarfélaga um slíkar breytingar. Hér erum við að ræða um 1.500--1.800 millj. kr. tekjutap sveitarfélaganna og þessi ríkisstjórn, með öllum sínum hroka gagnvart sveitarfélögum og öðrum í landinu, lætur ekki svo lítið að tala við sveitarfélögin. Einungis í Reykjavík er tekjutapið, eins og fram kemur í umsögn Reykjavíkurborgar, milli 500 og 600 millj. kr.

Ég hefði gjarnan vilja heyra það frá formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga hvort hann líti ekki á þetta sem brot á samskiptasáttmála ríkis og sveitarfélaga þó að hæstv. ráðherra geri það ekki. 8. gr. samstarfssáttmálans er alveg skýr í mínum huga. Það á að taka það til sérstakrar umfjöllunar í samstarfsnefnd ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga ef um er að ræða breytingar á fjárhagslegum samskiptum þeirra. Enginn veit þegar þetta frv. verður afgreitt sem lög frá Alþingi á næstu dögum hvort sveitarfélögunum verði þetta bætt á einn eða annan hátt.

Herra forseti. Hæstv. ráðherra sagði áðan að stefnubreyting hefði orðið hjá þeirri sem hér stendur varðandi eignarskatta. Nú er tvennu ólíku saman að jafna, herra forseti, skattatillögum stjórnarflokkanna eins og þær birtast í þessu frv. og skattatillögum þeim sem Samfylkingin stendur fyrir og hér hafa verið kynntar. Þar er ekki bara litið til stóreignafyrirtækja, stórfyrirtækja og stóreignamanna, heldur er litið á jafnræði og sanngirni í skattlagningu, ekki bara gagnvart fyrirtækjum heldur er líka verið að horfa til einstaklinga. Slíkur heildarpakki þar sem sýn okkar er allt önnur en Sjálfstfl. er auðvitað allt annað en að fara út í eignarskattslækkun eins og hér er gert. Við leggjum t.d. til að fara þá leið að hækka fjármagnstekjuskatt um 16% á móti eignarskattslækkuninni. Með hvaða áhrifum, herra forseti? Með þeim áhrifum og afleiðingum að við hlífum hóflegum sparnaði fólks. Við viljum lækka fjármagnstekjuskatt. Við viljum fella niður fjármagnstekjuskatt hjá 55 þús. sparifjáreigendum. Þeir voru 78 þús. fyrir þessa breytingu en yrðu 22 þús. næði hún fram að ganga. Það er allt annað að standa að eignarskattslækkun þegar slíkt kemur á móti.

Af því að hæstv. ráðherra var að vitna í fyrri ár og tíma minn væntanlega í ríkisstjórn með Sjálfstfl. verð ég að segja, herra forseti ... (Fjmrh.: 1988.) 1988. Það var oft, herra forseti, þegar við vorum í ríkisstjórn með Sjálfstfl. ... (Fjmrh.: Það var ekki þá.) Það var ekki þá en það var oft sem maður lenti í glímu einmitt þá við sjálfstæðismenn sem alltaf eru með sömu hugsunina uppi vegna þess að þeir eru fyrst og fremst í hagsmunagæslu fyrir stóreignafólk og stórfyrirtæki og þeir hafa ekkert breyst þótt þeir séu í ríkisstjórn með framsóknarmönnum. Mér sýnist á þessum skattapakka og miðað við stefnu framsóknarmanna að þeir hafi ekki fengið mikið út úr honum. Ég vil þó óska þeim til hamingju með að þeir hafa fengið hæstv. ráðherra --- það hefur þá væntanlega verið þeim mjög dýrt sem þeir hafa þurft að kokgleypa í staðinn --- fengið afnám á skattlagningu á húsaleigubótum sem hefur verið eitur í beinum sjálfstæðismanna.

Ég segi það, miðað við orð ráðherra, að honum finnst ekki muna mikið um það þó að Ísal eða önnur stóriðjufyrirtæki gangi inn í þetta skattumhverfi og fái nokkur hundruð milljónir í skattalækkanir á sama tíma og hér er lagt fram frv. um að auka skatta á sjúklinga og námsmenn. Þetta er einmitt sýn hæstv. fjmrh. og flokks hans. Mér finnst muna um það í þeim niðurskurði sem við stöndum frammi fyrir hvort við förum í hátekjuskattinn núna á þessum erfiðleikatímum, t.d. á næsta ári þar sem verið er að hækka komugjöld og innritunargjöld og efnisgjöld í framhaldsskólum, og auka skatta á sjúklinga og námsmenn. Að fresta þessum hátekjuskatti upp á 600 millj. eins og við höfum lagt til er auðvitað allt önnur sýn og allt önnur skattastefna en stjórnarflokkarnir hafa. Auðvitað munar líka um það hvort þessar skattalækkunartillögur, t.d. tekjuskattslækkun niður í 18%, ganga til stóriðjufyrirtækjanna líka vegna þess að það þýðir verulega mikið tap ríkissjóðs til viðbótar því sem er í skattatillögum þeirra.

Herra forseti. Það er nefnilega svo, sem við höfum sýnt fram á í þessu nál., að á Íslandi er rekin önnur skattapólitík, önnur skattastefna, en í flestum öðrum ríkjum OECD. Það höfum við sýnt fram á með talnaefni. Það höfum við sýnt fram á með umsögnum ríkisskattstjóra og skattstjóranna almennt. Við höfum sýnt fram á að hér á landi er skattastefnan sú að létta sköttum af stórfyrirtækjum en hækka skatta á einstaklinga. Ríkisskattstjóri segir í umsögn sinni þegar hann er spurður um það, og það er hér í nefndarálitinu, að þessu sé þveröfugt farið hjá öðrum þjóðum. Þar er stefnan sú að skattarnir eru hærri á fyrirtæki og fjármagnseigendur ekki síst en lægri á launafólk enda ber launafólk uppi 83% af skatttekjum ríkissjóðs. Sýnt hefur verið fram á það, m.a. af fjmrh. sjálfum í svari sem hann hefur lagt fram á þingi, að skattar á vöru og þjónustu hér eru með því hæsta sem þekkist. Tekjuskattur einstaklinga er með því hæsta sem þekkist. Skattar á fyrirtæki eru með því lægsta sem þekkist og hvergi er lægri fjármagnstekjuskattur en hér. Það get ég sagt, herra forseti, að ég hefði aldrei í ríkisstjórn samþykkt þennan skattapakka stjórnarflokkanna með þessari eignarskattslækkun og öðru því sem hér er fram reitt. Við í Samfylkingunni höfum allt aðra sýn. Mér finnst ég sjá í þeirri stefnu sem stjórnarflokkarnir setja fram einmitt það sem lýst er í ágætri grein um íslenska skattkerfið úr blaðinu Tíund fyrir nokkru, skrifaðri af Indriða Þorlákssyni. Mér fannst ég sjá þar ágæta lýsingu á skattastefnu stjórnarflokkanna. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

[22:15]

,,Skaðleg skattasamkeppni leiðir til brenglunar á fjármála- og þjónustustarfsemi. Hún leiðir til þess að skattbyrði flyst af fjármagni yfir á vinnuafl. Hún grefur undan jafnræði og trúverðugleika skattkerfisins, eykur skattaundanskot og skattasniðgöngu, veldur auknum kostnaði við skattaframkvæmd og rýrir skattatekjur ríkjanna.``

Þetta er, herra forseti, stefna stjórnarflokkanna í hnotskurn.

Hæstv. ráðherra kemur hér og talar um að þetta muni auka umsvifin í efnahagskerfinu og vísar til skattalækkana á síðasta áratug í því sambandi. Þetta er allt hrakið í nál. Samfylkingarinnar. Ekki að við gerum það með okkar eigin orðum, okkar skoðunum, heldur er vísað til efnahagsstofnana í þjóðfélaginu, til ASÍ og Þjóðhagsstofnunar svo að dæmi séu tekin. Þær telja að þarna sé á ferðinni ofmat á efnahagsáhrifum.

Þegar hæstv. ráðherra talar um fjármagnstekjuskattinn, hvað hann sé hagstæður hér á landi og skattastefnan almennt fyrir fyrirtæki, þá bendi ég líka á það sem kemur fram í nál. okkar á bls. 18, þar sem við spyrjum hvort breytingar á fjármagnstekjuskatti muni hafa í för með sér fjárflótta úr landi af skattalegum ástæðum. Ríkisskattstjóri segir orðrétt:

,,Skattar á fjármagnstekjur eru í flestum löndum verulega hærri en hér á landi. Það hefur í þeim löndum ekki leitt til fjárflótta úr þeim í þeim mæli að það hafi verið talið tilefni til að lækka þá skatta. Það þýðir enn fremur að flutningur á fé til þessara landa án áframhaldandi skattskyldu hér hefði ekki skattalegt hagræði í för með sér.``

Herra forseti. Þetta eru ekki mín orð. Þetta eru orð ríkisskattstjóra, að það hefði ekki skattalegt hagræði í för með sér að flytja fjármagn úr landi jafnvel þó að fjármagnstekjuskattur yrði hækkaður.

Herra forseti. Ég held að það hafi komið fram, það heyrðist auðvitað í máli hæstv. fjmrh., að menn óttast hvaða afleiðingu það hefur að galopna, eins og hér er gert, fyrir yfirfærslu á einstaklingsrekstri yfir í einkahlutafélög. Það hefur verið sýnt fram á það með útreikningum skattstjóra að ef allir sem hefðu haft af því skattalegt hagræði og voru yfir skattleysismörkum hefðu flutt rekstur sinn yfir í einkahlutafélög þá hefði það þýtt meira en 1 milljarðs kr. tekjutap hjá sveitarfélögunum og um 500 millj. kr. tap hjá ríkissjóði.

Ég tel að með þeim tillögum sem við erum að leggja til yrði ekki svona breitt bil á milli skattlagningar á tekjum annars vegar og síðan á skattlagningu fyrirtækja og fjármagns, með því að hækka fjármagnstekjuskattinn eins og við leggjum til, með ákveðnu frítekjugólfi. Með því móti hefði ekki verið svo mikill hvati til að flytja úr einstaklingsrekstri yfir í einkahlutafélög með þeim afleiðingum sem lýst er í áliti frá Reykjavíkurborg en þeir telja að með því muni einstaklingsreksturinn leggjast af.

Meiri hlutinn leggur fram brtt. til að reyna að reisa ákveðnar girðingar við því að óeðlilega mikið verði gert af því að flytja einstaklingsrekstur yfir í einkahlutafélög og með því að útfæra reglur varðandi hið reiknaða endurgjald. Ég vísa þá til þess að t.d. skattstjórinn í Reykjanesumdæmi sagði í umsögn sinni að hann teldi að það hefði ekki mjög mikil áhrif þó farið yrði út í það. Menn telja að verið sé að auka álag á allar skattstofur og skattaframkvæmd með þessum breytingum sem muni þegar á næsta ári kalla eftir auknum mannskap á skattstofunum.

Ein af þeim tillögum sem meiri hlutinn setur fram varðandi reiknaða endurgjaldið er sem hér segir:

,,Framteljandi skal m.a. láta í té upplýsingar um umfang og eðli starfs og starfsemi, afkomu rekstrarins, fjármagn bundið í rekstri og upplýsingar um útselda vinnu eftir því sem það á við.``

Þegar þessi tillaga var lögð fram í efh.- og viðskn. voru á fundinum fulltrúar fjmrh. og ríkisskattstjóri. Þar tókust þessir tveir aðilar nokkuð á, ríkisskattstjóri og fulltrúar fjmrn., um hluta af þessari tillögu, þ.e. að þarna skuli kveðið á um og sett í lög að framteljandi eigi að láta í té upplýsingar um umfang og eðli starfsins.

Í umsögn ASÍ koma einmitt fram sömu viðvaranir og ríkisskattstjóri setti fram þegar hann gagnrýndi hvernig fara ætti í þetta mál. Þarna er verið að óska eftir upplýsingum sem erfitt eða nánast útilokað er fyrir skattstjórana að staðreyna, þ.e. um umfang á starfi þeirra sem reikna sér endurgjald. Viðkomandi gæti lagt fram upplýsingar um tiltölulega lágt endurgjald og sagt að það væri vegna þess að hann væri í hálfu starfi hjá fyrirtæki sínu meðan hann væri í reynd í fullu starfi svo dæmi sé tekið. Ég hef ekki umsögn ASÍ við höndina en þeir lýsa þessu mjög nákvæmlega, hvaða áhrif þetta getur haft. En af því að skattstjóri getur ekki staðreynt --- varla getur hann vitað það nákvæmlega --- þann tímafjölda sem liggur að baki vinnunni hjá þeim sem reikna sér endurgjald leitar hann kannski til yfirskattanefndar til þess að fá úrskurði skattstjórans hnekkt, sem vill hækka á hann endurgjaldið. Þá gæti yfirskattanefndin sagt að þar sem ekki liggi fyrir sönnun frá skattstjóraembættunum þá falli þetta niður, sú hækkun sem skattstjórarnir vilja hugsanlega hækka endurgjaldið um.

Ríkisskattstjóri lagði mikla áherslu á að fá þessu breytt en fulltrúar fjmrh. ekki. Þetta held ég að muni gera alla skattaframkvæmdina og skatteftirlitið mjög erfitt. Ég legg áherslu á að meiri hlutinn komi til móts við þessi sjónarmið og okkur í minni hlutanum sem teljum eðlilegt að koma til móts við sjónarmið yfirmanns skattaeftirlitsins og breyti þessari tillögu.

Herra forseti. Hér var rætt um hvort fjmrh. uppfyllti þau loforð sem hann gaf í sumar þegar mikil hækkun varð á fasteignamatinu með þeim áhrifum að sýnt þótti að leiða mundi til skattahækkana hjá fólki, t.d. vegna eignarskatta og skerðinga á bótum. Efh.- og viðskn. fundaði í sumar þar sem ítarlega var farið yfir þetta mál. Niðurstaðan af þeim fundi var einróma og henni lýsti t.d. Vilhjálmur Egilsson, formaður efh.- og viðskn. í viðtali eftir þann fund. Efh.- og viðskn. var sammála um að hækkun á fasteignamati ætti ekki að leiða til skattahækkana eða skerðinga á bótum.

Hæstv. fjmrh. kom fram, einnig Davíð Oddsson forsrh., og þeir sögðu líka að áhrifin af fasteignamatinu ættu ekki að leiða til skattahækkana. Efh.- og viðskn. fékk lista frá fjmrn. um hvaða áhrif þetta hefði að óbreyttu, þ.e. þýddi verulega hækkun á eignarskatti, ég man ekki nákvæmlega töluna. Það þýddi hækkun á stimpilgjöldum, það þýddi hækkun á erfðafjárskatti og það þýddi skerðingu á vaxtabótum um 170 millj. Við í nefndinni stóðum öll í þeirri trú, miðað við þessi orð, að við þessar yfirlýsingar yrði staðið fyrir lok fjárlagaafgreiðslunnar. Það hefur verið staðið við að hækkun á fasteignamatinu hafi ekki áhrif til hækkunar á eignarskatti en það hefur ekki verið staðið við hitt, varðandi áhrifin til skerðingar á vaxtabótum.

Nú vísar hæstv. ráðherra til umræðna sem hafa verið á þessu hausti. Ég hef ekki tekið þátt í þeim. Hæstv. ráðherra segir að hann hafi sagt við þá umræðu, aðspurður af einhverjum þingmanni, að hann mundi ekki beita sér fyrir því að fasteignamatið mundi ekki skerða vaxtabætur. Hann kveðst hafa svarað nei við því þegar hann var spurður hvort hann mundi beita sér fyrir því. Þannig að við það stendur núna. Vaxtabætur verða skertar um 170 millj. en það er staðið við lækkun á eignarskatti. Það var einmitt ekki síst vegna þess sem efh.- og viðskn. ætlaði að þinga milli 2. og 3. umr., vegna þess að það er einlægur vilji t.d. formanns efh.- og viðskn. að komið verði til móts við það sem um var talað í sumar.

Við munum fara yfir þetta í efh.- og viðskn. og ég býst við því að þingið hafi sjálfstæðan vilja í þessu efni og efh.- og viðskn., þrátt fyrir að hæstv. fjmrh. hafi einhverja aðra skoðun, sameinist um að flytja brtt. við 3. umr. um að hækkun á fasteignamati skerði ekki vaxtabætur. Á það reynir nú milli 2. og 3. umr. Ég skal setjast yfir það með hv. formanni efh.- og viðskn. að finna leið til að þetta hafi ekki þau áhrif að skerða tekjur ríkissjóðs. Það skal ekki standa á því. En ég legg mikla áherslu á að a.m.k. efh.- og viðskn. falli ekki frá þeirri skoðun sem hún hafði á þessu máli í sumar, þó hæstv. ráðherra ætli að standa þannig að málum að vaxtabæturnar verði skertar. Ég harma það ef svo verður.

Herra forseti. Sjálfsagt væri hægt að hafa um þetta miklu lengra mál en ég ætla hér að nema staðar. Ég harma það hve vanhugsuð skattastefna ríkisstjórnarinnar er. Ríkisstjórnin mun ekki ná þeim markmiðum sem hún reynir að setja fram með þessum tillögum. Þetta er illa ígrunduð skattastefna sem mun hafa þau áhrif sem við höfum lýst í ítarlegu nál. en þjóðin ætti eftir þessa umræðu að vera örugglega fullviss um að Samfylkingin hefur allt aðra skattastefnu en stjórnarflokkarnir.

Það er með ólíkindum, herra forseti, að Framsfl. sé svo heillum horfinn að hann láti Sjálfstfl. teyma sig í að taka upp skattastefnu sem hvergi þekkist hjá þeim þjóðum sem við berum okkur saman við, þ.e. að auka skatta á einstaklinga og laun en hlífa stóreignafólki, stórfyrirtækjum og setja kostnaðinn af því yfir á landsbyggðina, sprotafyrirtæki og lítil og meðalstór fyrirtæki.

Þessi skattastefna, herra forseti, er stjórnarflokkunum til skammar.