Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 22:33:57 (2644)

2001-12-06 22:33:57# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, Frsm. 1. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[22:33]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég vísa því gjörsamlega til föðurhúsanna að hér sé um einhverja stefnubreytingu að ræða. Ég vísa bara til orða minna hér áðan og vænti þess að hæstv. ráðherra hafi hlustað á þau vegna þess að þegar þær skattatillögur sem við erum með í Samfylkingunni eru skoðaðar eru þær allt annars eðlis, eins og hæstv. ráðherra sagði sjálfur í ræðu sinni áðan, en tillögur stjórnarflokkanna. Það er allt annað að fallast á lækkun á eignarskatti þegar um er að ræða hækkun fjármagnstekjuskatts á móti. Það er eðlilegt. Og ég skammast mín ekkert fyrir það þó að ég hafi verið með einhverja tillögu 1988 um hærri eignarskatta þegar --- ja, var fjármagnstekjuskatturinn kominn á þá? Nei. Þá var enginn fjármagnstekjuskattur þannig að ég vísa bara þessum orðum til föðurhúsanna. Ég tel þau ósanngjörn í minn garð vegna þess að sú skattastefna sem við stöndum fyrir er sem betur fer allt önnur en fjmrh. og stjórnarflokkarnir standa fyrir. Hún er skynsamlegri, hún er réttlátari og stuðlar að meira jafnræði og sanngirni í skattlagningunni sem er þveröfugt við það sem stjórnarflokkarnir vilja í skattamálum á Íslandi.