Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 12:13:31 (2649)

2001-12-07 12:13:31# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, ÁRJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[12:13]

Ásta R. Jóhannesdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég hef ekki beint upp á fundarstjórn forseta að klaga. Aftur á móti verð ég að vekja athygli á því að við erum að ræða rammafjárlög og erum búin að vera í þessari umræðu frá því klukkan hálfellefu í morgun, en enginn ráðherra hefur gefið sér tíma til þess að sitja við þessa umræðu í salnum. Í morgun var hér enginn ráðherra þegar umræðan hófst og ég spyr hæstv. ... (Gripið fram í.) enginn ráðherra ... (Gripið fram í.) a.m.k. ekki hér í salnum. (Gripið fram í.) Ég er búin að sitja hér yfir allri umræðunni. Það hafa þrír ráðherrar komið hér inn í mýflugumynd --- það skal viðurkennt --- á meðan á umræðunni stóð.

Aftur á móti spyr ég --- ég fagna hæstv. ráðherra ... (Gripið fram í.) Má ég spyrja: Hversu margir ráðherrar eru í húsinu?

(Forseti (ÁSJ): Forseti getur upplýst að hæstv. fjmrh. er viðstaddur umræðuna.)

Ég sé hann og fagna honum. En hversu margir aðrir? Nú eru rædd rammafjárlög þar sem hver ráðherra ber ábyrgð á sínu ráðuneyti og ég vil fá að vita hversu margir ráðherrar eru í húsinu. (Gripið fram í: Ha, er andsvar?)

(Forseti (ÁSJ): Á þessari stundu er hér aðeins hæstv. fjmrh.)

Er það einn ráðherra? Ég vil líka vekja athygli á því að hæstv. forsrh. sem er nú verkstjóri þessarar ríkisstjórnar, hefur heldur ekki séð sóma sinn í því að vera viðstaddur þessa fjárlagaumræðu. Mér finnst full ástæða til þess að ráðherrarnir séu viðstaddir. Verið er að skera mikið niður á fjárlögum og það er verið að taka hérna mjög afdrifaríkar ákvarðanir fyrir ákveðinn hóp fólks. Ég fer fram á það, herra forseti, að ráðherrarnir verði viðstaddir þessa umræðu í dag. (Fjmrh.: Forsrh. er við jarðarför norður á Akureyri.)