Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 12:20:19 (2654)

2001-12-07 12:20:19# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, ÍGP (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[12:20]

Ísólfur Gylfi Pálmason (um fundarstjórn):

Herra forseti. Áðan var hér fullyrt að enginn ráðherra væri í salnum og enginn ráðherra að hlusta á þessa umræðu. Eins og hv. þm. vita er tölvuborð í sæti hæstv. forseta þar sem hann getur fylgst með hvaða þingmenn og hvaða ráðherrar eru viðstaddir umræðu hverju sinni. Allir slá sig inn í kerfi þingsins og þannig er alltaf hægt að fylgjast með því hverjir eru mættir.

Hugsanlega mætti hafa þann hátt á að með ákveðnu millibili birtist hér á skermi þannig að alþjóð mundi fylgjast með því hverjir eru að störfum í þinginu hverju sinni, hvort heldur er á nefndarfundum eða öðrum fundum. Það held ég að væri ágætis leið til að fólk fylgdist með viðveru. Býsna margir hafa tilhneigingu til að koma því orði á þingheim að hann sé ekki viðstaddur umræðu og þar fram eftir götum. Það ættum við að hugsa um hvert um sig. Við vitum líka að þingmenn og ráðherrar eru mjög uppteknir við mörg störf eins og gengur og gerist. Þess vegna væri hugsanlega ágætisleið að birta þetta á skjá en við eigum ekki sífellt að vera að kvarta undan því að þingmenn og ráðherrar séu ekki viðstaddir ákveðnar umræður hverju sinni.