Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 13:39:49 (2667)

2001-12-07 13:39:49# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, Frsm. 1. minni hluta MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[13:39]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Margrét Frímannsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason sem á sæti í fjárln. ætti að vita að samkvæmt upplýsingum frá skattrannsóknarstjóra þá skilar hver króna sem sett er í hert eftirlit mun hærra hlutfalli til baka. Þegar Samfylkingin, sem vill gjarnan vinna sín verk vel, setti fram þessa tillögu þá var það að sjálfsögðu gert og farið nákvæmlega eftir þeim leiðbeiningum sem hafa komið fram frá skattrannsóknarstjóra ríkisins. Ég held að hv. þm. hljóti að vita það hvert hlutfallið er þarna á milli og hafi fengið þær upplýsingar rétt eins og við.

Varðandi það að skera niður ferðakostnað og risnu. Reyndar var talað um ráðuneytin í tillögunum, en sjálfsagt má gera það á allri yfirstjórn. Það er samkvæmt ábendingum sem m.a. hafa komið frá Ríkisendurskoðun og má finna í skýrslum Ríkisendurskoðunar. Fjárlaganefndarmenn mættu gjarnan gera meira af því að fara ítarlega í þær skýrslur eins og við höfum reynt að gera, taka ábendingar þeirra til greina. Þessar ábendingar koma fram í tillögum okkar, bæði hvað varðar ferðakostnað, risnu og sérfræðikostnað ráðuneytanna.

Þetta eru ábendingar sem hafa komið fram frá Ríkisendurskoðun um að þarna hafi vöxturinn orðið mun meiri en eðlilegt geti talist. Tillögur okkar eru í samræmi við þær athugasemdir sem komið hafa fram.