Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 13:43:08 (2669)

2001-12-07 13:43:08# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, Frsm. 1. minni hluta MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[13:43]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Margrét Frímannsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt hjá hv. þm. að við þurfum í auknum mæli að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi. Breytt umhverfi felur það í sér. En við búum sem betur fer við breytt umhverfi á fleiri sviðum, t.d. á sviði fjarskiptatækni. Það er alveg klárlega þannig að hægt er að nota þá tækni miklu meira en gert er í dag til þess að draga úr þeim kostnaði sem íslenska ríkið hefur af ferðalögum og vegna þess að við erum að senda fólk til fundarstarfa erlendis. Ég er ekki að draga úr vægi þessa samstarfs. Það eykst og á að aukast vegna þess að við viljum vera virkir þátttakendur. En við getum gert það á fleiri en einn veg.

Hvað varðar sérfræðikostnaðinn sem hv. þm. nefndi hér áðan þá er sá kostnaður mjög stór hluti af rekstrarkostnaðinum. Hann er mjög stór hluti í rekstrarkostnaði ráðuneyta og stofnana og eins hjá Alþingi. En varðandi hvernig eigi nákvæmlega að útfæra það held ég að ég yrði að treysta stjórnendum viðkomandi ráðuneyta og Alþingis til að útfæra aðferðir til að draga úr kostnaðinum og setja kannski skýrari reglur um hvernig með þennan kostnað skuli farið.