Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 15:05:35 (2684)

2001-12-07 15:05:35# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[15:05]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil minna hv. þm. á að við Íslendingar greiðum hærri skatta vegna þess að við viljum borga skatta til þess að þurfa ekki að vera að borga þegar við erum orðin veik, þegar við þurfum á heilbrigðisþjónustu að halda. Það er vilji almennings. Það hefur verið fundið út í skoðanakönnunum að menn vilja borga hærri skatta til að ekki sé verið að rukka fólk þegar það er orðið sjúkt og getur ekki aflað tekna lengur eða þegar það er orðið fatlað.

Ég minni líka á að niðurskurðartillögur ríkisstjórnarinnar munu hafa þau áhrif að þjónusta í heilbrigðiskerfinu mun dragast saman. Ég bendi bara á Landspítalann. Þar mun þjónusta dragast saman og við munum missa hæfa starfskrafta úr landi með þessu áframhaldi ef tillögur ríkisstjórnarinnar verða að veruleika. (Gripið fram í.) En við viljum koma í veg fyrir það. Við borgum mjög háa skatta og við þurfum ekki að skera niður í velferðarkerfinu til að skila meiri tekjuafgangi á þessum fjárlögum. Skoðið bara tillögur Samfylkingarinnar sem liggja hér á borðunum.