Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 15:19:30 (2696)

2001-12-07 15:19:30# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[15:19]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það var staðfest sem ég var að vona, að hv. þm. hefði ekki gleymt hvernig þetta hófst og það er auðvitað ánægjulegt og ég vona að hann lesi þessar ágætu ræður sínar kvölds og morgna eða ætíð þegar hann fer að hafa áhyggjur af því að gleyma einhverju úr þeim.

En, herra forseti, hv. þm. sagði ýmislegt fleira og m.a. það að þær tillögur sem nú lægju fyrir frá ríkisstjórninni og meiri hluta fjárln. hefðu verið unnar með skömmum fyrirvara og þær bæru þess merki. Það er auðvitað spurning hvort þetta segi ekki ansi margt um tillögurnar, þær bera þess einmitt mjög vel merki að vera unnar með skömmum fyrirvara. Það er með ólíkindum vegna þess að það hefur blasað við mjög lengi hvert stefndi. Og margt af því sem hv. þm. var einmitt að benda á er búið að standa yfir mjög lengi og menn hefðu getað verið viðbúnir þessu og hefðu þess vegna átt að geta tekið á rekstrinum með þeim fyrirvara sem hv. þm. nefndi.

Ég vil spyrja hv. þm.: Er ekki tillagan sem er nú í tvígang búið að nefna varðandi það að lækka lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs einmitt um það að menn hafa haft skamman fyrirvara og ákveðið að fara hinar einföldu leiðir og höfðu kannski ekki mjög traust land undir fótum þegar þeir voru að reikna útkomuna í þeim efnum?