Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 16:13:07 (2710)

2001-12-07 16:13:07# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[16:13]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. talar um gaddavírstillögur. Ég fer að halda að hann hafi eitthvað ruglast á því að hér er komin fram tillaga um breytingar á girðingarlögum. (Gripið fram í.) Það er komin fram breyting á girðingarlögum. Hann hefur eitthvað ruglast í ríminu, hv. þm. Það er verið að ræða hér um fjárlögin en ekki girðingarlögin.

Við getum séð það, herra forseti, að verið er að gera mjög margt til að leiðrétta stöðu sjúkrahúsa um allt land. Það er ekki verið að leggja á álögur, það er verið að reyna að auka þjónustu. Fólk sem dvelur á sjúkrahótelum borgar hluta af þeim kostnaði sem til fellur vegna matar og annars. Ég heyri ekki annað en öllum finnist það eðlilegt. Ég hef alla vega ekki heyrt neinn kvarta yfir því nema stjórnarandstöðuna. (GE: Að hvað?) Ég hef ekki heyrt neinn kvarta yfir því nema stjórnarandstöðuna.

Ég ætla að benda á nokkrar tölur sem sýna að verið er að gefa í varðandi fjárlög til heilbrigðismála. Til dæmis aukast framlög til Landspítala -- háskólasjúkrahúss um 13% eða tæpa 2,4 milljarða á milli ára. Til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri koma 173 millj. til viðbótar milli ára sem er 8% aukning. Í Vestmannaeyjum bætast við 7%, á Selfossi 11% og Suðurnesjum 15% þannig að það er alls staðar verið að bæta við og alls staðar verið að gera mun meira en sem svarar verðbólgunni. Ég held því, herra forseti, að hv. þm. hafi ekki lesið í sjálfu sér það sem verið var að gera heldur pikkar út einstaka liði sem hann telur geta verið einhvers virði að tortryggja en þegar grannt er skoðað, þá er það um leið feilhögg eins og annað.