Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 16:49:38 (2719)

2001-12-07 16:49:38# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, Frsm. 1. minni hluta MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[16:49]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Margrét Frímannsdóttir) (andsvar):

Hv. þm. Kristján Pálsson getur þá kannski svarað því hvort sá hallarekstur sem myndast, bara vegna gengishruns sem hefur orðið á árinu og hefur falið í sér gífurlegar hækkanir á lyfjakostnaði og rekstrarvörum hjá Landspítalanum, hefur verið tekinn inn í þessa reikninga og hvort honum sé að fullu mætt með þessum framlögum. Svo er ekki. Og bara vegna þess að það var nefnt --- ég ætla ekki að ræða Sjúkrahús Suðurlands, ég er búin að gera það oft í ræðustól --- á Akureyri var til að mynda fengin heimild til að kaupa röntgentæki. Þegar útboð fór fram á sínum tíma var reiknað með að þau kostuðu 80 millj. En hvað kosta þau í dag? 105 millj. 25 millj kr. viðbót fellur á sjúkrahúsið. Hvar er þessu mætt? Það þýðir ekki að vera með svona sýndarmennsku. Menn verða að vera með raunsannar tölur og þetta er bara hreint og klárt þvaður. Það er ekki frekar tekið á þessum aðstæðum en öðrum sem stofnanirnar fá að búa við.