Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 18:10:32 (2738)

2001-12-07 18:10:32# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[18:10]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það fór eins og mig grunaði og ég raunar vissi, að hæstv. heilbrrh. hefur lýst því mjög skýlaust og afdráttarlaust yfir að hann sé ekki til viðræðu um innritunargjöld á sjúkrahús ellegar að sjúklingar sem þar eru inniliggjandi taki þátt í kostnaði við, hvort heldur það eru sprautur eða handklæði eða sængur eða hvað eina, eins og Sjálfstfl. hefur gjarnan haldið fram.

Ég var hins vegar að lýsa áhyggjum mínum af því, herra forseti, og ég get ekki leynt því að þær eru enn til staðar þrátt fyrir þessa yfirlýsingu ráðherrans, að hann hafi látið þarna fyrir litlar 10 milljónir hnika sér yfir línu sem áður var dregin. Sjúkrahótel eru óaðskiljanlegur hluti heilbrigðisþjónustunnar.

Sem úrræði í framtíðinni er jafnvel mögulegt að ekki þurfi að útskrifa sjúklinga. Sjúklingar á Landspítalanum gætu verið fluttir á sjúkrahótel í helmingi ódýrara rúm, eins og hæstv. heilbrrh. þekkir. Ég hefði viljað sjá þetta og hef verið mikill bandamaður frumkvöðuls alls þessa, Ólafs Ólafssonar, fyrrum landlæknis, sem hefur verið mikill talsmaður þessa úrræðis.

Þess vegna er mér annt um þessar stofnanir sem slíkar og finnst skjóta skökku við að það eigi að skjóta þeim út af borðinu í lagatexta sem sjúkrastofnunum. Það finnst mér vont út af fyrir sig. Enn verra finnst mér í því samhengi að samhliða eigi að festa í lög að sjúklingar --- því að þarna eru auðvitað engir aðrir en sjúklingar. Þarna eru engir hótelgestir. Það kemur enginn inn á sjúkrahótel af því að hann vilji endilega vera þar. Það er ekki þannig. Það velur það enginn að vera á sjúkrahótelum --- eigi að láta borga þó um litla upphæð sé að ræða. Ég bara veit það, og hæstv. ráðherra heilbrigðismála veit það líka, að íhaldið kemur núna strax eftir áramót og biður um næsta skref.