Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 18:13:48 (2740)

2001-12-07 18:13:48# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[18:13]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég var fyrst og síðast að segja er að sú endurskilgreining á sjúkrahótelum sem er að finna í þessum lagatexta er dálítið vanhugsuð að mínu áliti. Ég held að hún geti dregið dilk á eftir sér. Þar er verið að skilja á milli starfsemi sem fer fram á sjúkrastofnunum og starfsemi sem er í þráðbeinu framhaldi á sjúkrahótelum, svo ég tali nú bara um þann þáttinn sérstaklega. Af því hef ég dálitlar áhyggjur.

Hitt er svo að setja á sértæk gjöld fyrir það því að það er auðvitað augljóst til hvers leikurinn er gerður.

Til hvers er verið að endurskilgreina sjúkrahótel með þessum hætti? Jú, það er til þess að menn geti réttlætt það að hægt sé að taka gjöld fyrir þetta. Mér finnst ljótur leikur að standa í slíkum tilfæringum.

Ég ætla svo sem ekkert að orða það meira. Ég get undirstrikað það sem ég sagði áðan. Ég hef fulla trú á hæstv. heilbrrh. í því að reyna að sporna við. En fyrst og síðast hef ég mikla samúð með honum fyrir að búa við það böl að eiga við íhaldið þegar kemur að þjónustu við sjúkt fólk, veikt fólk og aldraða á Íslandi. Ég þekki þær þrautir sem hann gengur í gegnum þannig að hann veit líka að hann á minn stuðning í því að reyna að berja þá af sér þegar kemur að því að markaðsvæða og frjálshyggjutrylla heilbrigðiskerfið. Það verður að standa vörð um það. Ég vil trúa því að þrátt fyrir hrösun í þessum málum og hækkun komugjalda, muni hann standa sig þegar til kastanna kemur, a.m.k. munum við hjálpa honum til þess.