Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 18:59:53 (2746)

2001-12-07 18:59:53# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[18:59]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Í þessu fjárlagafrv. sýnir ríkisstjórn Davíðs Oddssonar sitt rétta andlit. Þegar draga þarf saman í ríkisrekstri er hún fljót að finna matarholurnar. Eins og venjulega er ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. Sjúkir og námsmenn eiga að borga og fatlaðir líða fyrir og bíða áfram eftir þjónustu. Þó svo eitthvað hafi verið komið til móts við þá er það hvergi nærri því sem búið var að lofa.

[19:00]

Ef við berum hér saman tillögur Samfylkingarinnar og tillögur ríkisstjórnarinnar við þessa fjárlagagerð kemur fram mismunurinn á íhaldsstefnunni og jafnaðarstefnunni. Íhaldið vílar ekki fyrir sér að ráðast á velferðarkerfið á sama tíma og við jafnaðarmenn skilum svipuðum tekjuafgangi án þess að draga nokkuð úr velferðarþjónustunni. Og ég vísa hér til síðasta ræðumanns, hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar, sem fór yfir tillögur Samfylkingarinnar í þessari umræðu. Við stöndum við loforðin við fatlaða í tillögum okkar, við foreldra fatlaðra barna, og skilum samt sama og jafnvel aðeins meiri tekjuafgangi.

Herra forseti. Við höfum verið að ræða þetta fjárlagafrv. í dag og hefði mátt taka á ýmsu. En ég ætla aðeins að stikla á stóru og fara yfir nokkur atriði sem varða félagsmálin og síðan heilbrigðismálin. Ég ætla að byrja á því að koma aðeins að málefnum Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins.

Í fjáraukalögunum var greiddur upp skuldahali sem hafði safnast upp hjá þessari mikilvægu stofnun í lífi fatlaðra barna. Þar voru sett þau skilyrði að væri borgaður upp skuldahalinn kæmu ekki frekari fjárveitingar til stofnunarinnar og vinnunnar þar.

Þetta er mjög alvarlegt, herra forseti. Við vitum að það er þó nokkuð stór hópur fatlaðra sem fær enga þjónustu hjá þessari stöð. Það er líka margra mánaða bið eftir greiningu og ég geri ráð fyrir því, herra forseti, að þingmenn hafi fengið bréf frá föður barns sem er búið að bíða lengi eftir þjónustu --- ég sé hér að það var sent til allra þingmanna --- þar sem hann lýsir því hvernig staðan er hjá foreldrum sem lenda í því að eignast barn sem þarf þjónustu Greiningarstöðvarinnar.

Hann segir frá tveggja og hálfs árs gömlum dreng sem er seinn til og foreldrarnir fara með hann til heimilislæknis. Heimilislæknirinn vill ekki skera úr um þetta strax, segir þeim að bíða. Hálfu ári seinna fara þau aftur, drengurinn þroskast ekki eins og önnur börn á hans reki. Þá eru foreldrarnir beðnir um að fara með hann til barnalæknis. Hann þarf enn að bíða eftir þjónustu barnalæknis í tvo mánuði og þegar barnalæknirinn segir svo að hann þurfi að fara í greiningu á Greiningarstöð ríkisins er þar a.m.k. tíu mánaða bið.

Þegar hann loksins er búinn að fá greininguna hjá Greiningarstöðinni eftir þessa löngu bið er enn bið eftir þjálfun, hálfs árs bið eftir talmeinafræðingi og enn lengri bið eftir iðjuþjálfun. Foreldrunum er sagt að barnið muni ná sér fái það rétta þjónustu. En þarna er það búið að bíða í nokkur ár liggur við þegar loksins fæst viðunandi þjónusta. Þetta er auðvitað ekki boðlegt í velferðarsamfélagi.

Greiningarstöðin fær hér um 9 milljónir til rekstrar. Hún þarf 25 milljónir til viðbótar til að geta veitt öllum þjónustu, öllum þeim sem ekki fá þjónustu í dag. Ekki vill ríkisstjórnin verða við því. Nei, það eru aðrar áherslur. Og áfram eiga fötluð börn og foreldrar þeirra að bíða eftir þjónustu áður en hægt er að fara að veita þjálfun.

Ég vil líka gera hér aðeins að umtalsefni loforð stjórnvalda um þjónustu vegna laga um málefni fatlaðra. Hér var búið að vinna heilmikla vinnu í undirbúningi að yfirfærslu þjónustu fatlaðra til sveitarfélaganna, sem ekki varð, og þar voru biðlistanefndir komnar að þeirri niðurstöðu að hægt væri að leysa alla biðlista á ákveðnu tímabili, fyrir 2005. Þessa biðlista átti sem sagt að leysa með ákveðnum fjárveitingum, þ.e. biðlista eftir búsetu, skammtímavistun og annarri þjónustu.

Enn þá vantar heilmikið upp á að staðið verði við þessi loforð. Áfram á að bíða eftir því að stjórnvöld standi við þetta. Verið er að vísa á komandi ríkisstjórnir í þessum efnum. Það er verið að vísa til þeirra sem taka við stjórnartaumunum hér eftir næstu kosningar til að efna þau loforð sem ráðherrar í þessari ríkisstjórn hafa verið að gefa þessum hópi, fötluðum og foreldrum þeirra.

Það ástand sem ríkir í málefnum fatlaðra er óþolandi. Það er verið að brjóta mannréttindi á þessum hópi, það ríkir mikil óvissa og mikið álag hvílir á þessum heimilum. Fólk veit ekkert hvað bíður, hvaða þjónustu það getur vænst og við vitum að fólk hefur verið að bíða eftir slíkri þjónustu í 10 ár og jafnvel lengur. Það þekkjum við öll af umfjöllun síðustu mánaða.

Það er líka enn þá verið að svíkja loforðin um skammtímavistunina sem er þó grundvöllur þess að fólk geti haft börnin sín heima. Ef foreldrarnir bugast er ekki í nein hús að venda. Þá eru þetta orðin mjög dýr úrræði fyrir samfélagið.

Herra forseti. Mig langar samt til að fagna einu sem kemur hér fram varðandi íbúa í blokkinni við Kópavogshælið. Ég sé að hæstv. heilbrrh. hefur tekist að leysa vanda þessa hóps, eins og hann talaði um á mánudaginn í óundirbúinni fyrirspurn frá mér að hann mundi beita sér í að gera. Það er fagnaðarefni því að þarna eru 20 einstaklingar sem ekki hafa notið viðunandi þjónustu og hafa reyndar aldrei fengið þjónustu eftir þeim lögum sem gilda um fatlaða. Ég fagna því að búið er að leysa þennan vanda.

Ég vil gera næst að umtalsefni heilbrigðis- og tryggingamálin en ég sé að verið var að dreifa á borðin hjá okkur frumvarpi um breytingar á lögum um almannatryggingar og fleiri mál er varða heilbrigðis- og tryggingamálin. Ég sé að þar er verið að leggja til ýmsar úrbætur. Aftur á móti er í þessu frv. til fjárlaga verið að leggja verulegar álögur á þá sem eru sjúkir. Ég vil minna á það, herra forseti, að í sumar, þ.e. 1. júlí, hækkuðu greiðslur fyrir sérfræðilæknishjálp. Greiðslur fyrir röntgenþjónustu hækkuðu og þjónusta sérfræðilækna hækkaði. Þá var einnig hækkað hámarkið áður en menn fengju afsláttarkort og það var 50% hækkun bæði hjá almenningi og hjá öldruðum og öryrkjum. Þá hækkaði hámarkið, áður en afsláttarkorti var náð, um 50%, hjá almenningi úr 12 þús. kr. í 18 þús. og hjá lífeyrisþegunum úr 3 þús. kr. í 4.500.

Þessi hækkun frá því í sumar mun verulega koma niður á sjúklingum í dag þar sem verið er að hækka sérfræðiþjónustuna og greiðslurnar fyrir ferliverkin. Ég held að menn hafi ekki alveg gert sér grein fyrir því hvað þarna er á ferðinni. Það á að láta sjúklinga greiða 160 millj. kr. til viðbótar til ríkisins fyrir þessa þjónustu. Það gerir það að verkum, ég skal nefna dæmi, að fari sjúklingur í algenga aðgerð, t.d. hnéaðgerð sem kostar yfir 20 þús. kr., borgar hann í dag, áður en þessi lög taka gildi, mest 5 þús. kr. fyrir aðgerðina. Það var sett þak á ferliverkin, á sérfræðiþjónustuna, sjúklingurinn borgaði ekki meira en 5 þús. Eftir að þessi lög taka gildi, þ.e. fjárlögin, er áformað að þarna sé ekkert þak á, afsláttarkortið muni gilda eftir 18 þús. kr. hjá almenningi og eftir 4.500 kr. hjá öldruðum og öryrkjum. En við skulum gera okkur grein fyrir því að afsláttarkortin gilda bara almanaksárið þannig að afsláttarkort þess sem fer í aðgerð í desember fellur úr gildi um áramótin.

Vegna þess hvað gjöld hafa hækkað undanfarið hef ég verið að nefna hér dæmi sem mér barst fyrir nokkrum dögum af ungri stúlku, 18 ára gamalli, sem greindist með krabbamein. Hún greiðir yfir 18 þús. kr. fyrir göngudeildarmeðferð, fyrir fyrstu meðferð vegna krabbameinsmeðferðar. Hún mun auðvitað ná afsláttarkortinu með þessari greiðslu og greiðir því minna en það er aðeins fram að áramótum. Þá fellur það afsláttarkort úr gildi og hún þarf að byrja aftur að borga upp í hámarkið af afsláttarkortinu.

Ég nefndi líka að aukaverkanir vegna lyfjanna hjá henni gera það að verkum að hún er að missa sjónina og það þarf að kaupa handa henni gleraugu. Það er enginn stuðningur vegna gleraugnakaupanna sem hlaupa á fleiri tugum þúsunda. Og það breytist auðvitað meðan hún er í meðferðinni vegna þess að lyfin hafa þessi áhrif.

Það er auðvitað allsendis óþolandi að vera að leggja svona álögur á sjúklinga, fólk með alvarlega sjúkdóma eins og krabbamein. Áður var það svo að fólk borgaði ekki fyrir krabbameinsmeðferðina en þetta eru álögur sem hafa verið að koma í tíð þessarar ríkisstjórnar og síðast núna í sumar þegar greiðslurnar fyrir rannsóknirnar voru hækkaðar.

Í þessari umræðu um hækkunina --- það er verið að hækka álögur á sjúklinga sem þurfa að fara í ferliverk um jafnvel 200--300% --- þess má geta að ég heyrði í fréttunum núna áðan, meðan ég var að bíða eftir að komast hér að, að BSRB hefur verið að láta gera úttekt á kostnaði sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og hvernig hann hefur margfaldast á undanförnum tíu árum. Það er hreint alveg með ólíkindum, kostnaðurinn hefur aukist um mörg hundruð prósent (Gripið fram í: Mörg þúsund prósent.) Mörg þúsund prósent, er sagt hér úti í sal.

Ég er hér með þessa úttekt og það er hreint ótrúlegt hvað þessi ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. hefur verið að leggja á sjúklinga. Kannski mætti segja að þetta væri ríkisstjórn Davíðs Oddssonar því á þessu tíu ára tímabili hefur það verið Davíð Oddsson, hæstv. forsrh., sem hefur leitt þær ríkisstjórnir sem hafa verið hér við stjórnvölinn. Það er hér úttekt, sem er á föstu verðlagi, og lyfin sem þar eru tekin inn í eru alltaf á lægsta verði úr apóteki og það munar mörg hundruð prósentum í hverju dæminu á fætur öðru. Ég held að hæstv. ráðherra ætti að fara yfir þessa úttekt. Ég geri ráð fyrir að hann hafi skoðað þetta því að ég sé að BSRB hefur borið þessi dæmi undir landlæknisembættið og Tryggingastofnun sem hefur staðfest að þetta er rétt, þessar álögur á sjúklinga.

Það er alveg merkilegt að þessi ríkisstjórn skuli alltaf finna breiðu bökin hjá sjúku fólki. Ég vil minna á að sjúklingar sem eru ekki með laun í veikindum sínum, eins og mjög margir eru, fá sjúkradagpeninga sem eru svo svívirðilega lágir að það er ekki einu sinni hægt að lifa á þeim, fólk er undir hungurmörkum á þeim smánargreiðslum sem sjúkradagpeningarnir eru frá Tryggingastofnun ríkisins. (Gripið fram í: En frá sjúkrasjóðunum?) Þeir sem fá frá sjúkrasjóðunum, vegna ábendingar héðan úr sal, eru að sjálfsögðu betur staddir, það er alveg rétt. En það eru bara ekki allir sem hafa þær greiðslur. (PHB: Þeir sem eru í vinnu.) Ég minni t.d. á húsmæður, þær vinna líka, þær vinna á heimilum, þær fá ekki nema brot af sjúkradagpeningum. Þær fá hálfa sjúkradagpeninga sem eru smánargreiðslur og þær eiga að framfleyta börnunum sínum á rúmum 100 kr. á dag. (Gripið fram í.) Ég geri ráð fyrir að hv. þm. Pétur Blöndal gæti gert það.

[19:15]

Herra forseti. Það er fyrir neðan allar hellur að veitast svona að velferðarkerfinu, veitast svona að sjúkum og þeim sem eru jafnvel búnir að missa starfsgetuna.

Ég er undrandi á því að hæstv. heilbrrh. skuli láta þetta yfir sig ganga. Ég veit alveg hvaðan þessar sendingar eru komnar og geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra sé ekki öfundsverður í þeirri glímu.

Herra forseti. Áfram með heilbrigðismálin. Hér hefur komið fram að gert er ráð fyrir að spara 310 millj. í lyfjakostnaði ríkisins. Þar af er sjúklingum ætlað að bera 200 millj. Það eru sem sagt á sjúklingunum sem álögurnar hafa farið yfir fleiri hundruð prósent á undanförnum árum, þeir eiga nú að fara að greiða 200 millj. til viðbótar í lyfjum.

Ég vil aftur á móti fagna því að hæstv. ráðherra ætlar að fara að taka á lyfjafyrirtækjunum og markaðssetningunni og auknum útgjöldum ríkisins vegna hennar, þ.e. vegna lyfjafyrirtækjanna. Vissulega hafa sjúklingar hagnast á því að apótekin hafa veitt afslátt. En það þarf auðvitað að stemma stigu við þeim vinnubrögðum sem viðgangast í lyfjageiranum hér á landi. Það þarf að taka á því. Það eru vinnubrögð sem eru alls ekki viðunandi. Ég tel að gagnsæjar og ákveðnar reglur þurfi um samskipti lækna og lyfjafyrirtækja og það er löngu orðið tímabært. Í öðrum löndum eru menn með slíkar reglur, ekki öllum öðrum löndum en sums staðar, og við eigum að ganga fram sem gott fordæmi og taka á þessum málum. Það er auðvitað engin hemja eins og komið hefur fram hjá lyfjafræðingi Tryggingastofnunar ríkisins hvernig vinsælustu lyfin eins og þau eru kölluð eru margfalt dýrari en sambærileg lyf, t.d. bólgulyfin eins og hefur komið fram. Þessu þarf að taka á.

Ég spyr, herra forseti, hæstv. ráðherra: Hvernig hyggst hann taka á þessum vanda?

Það er verið að ræða þetta víða úti í heimi. Ég veit t.d. að það er ráðstefna hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni í Bonn núna í desember, þar sem stjórnvöld og yfirvöld í heilbrigðismálum ætla einmitt að ræða þann vanda sem markaðssetning lyfjafyrirtækja er, þ.e. í hækkun lyfjakostnaðar hjá hinum ýmsu löndum.

Ég vildi gjarnan fá svör frá hæstv. ráðherra við því hvernig hann ætlar að ná þessum peningum niður, þessari lækkun á lyfjunum og velti fyrir mér hvort ekki væri ekki að ná þessu lengra niður. Ég tel það vera hægt.

Það er eitt enn sem ég vildi nefna fyrst hæstv. ráðherra er hér í salnum og það er að ég er sannfærð um að ef hið opinbera greiddi niður sálfræðiþjónustu, þá gætum við lækkað lyfjakostnað verulega. Og það mundi skila sér sem hagnaður fyrir stjórnvöld, fyrir skattgreiðendur. Það að sálfræðiþjónusta er ekki greidd niður af hinu opinbera gerir það að verkum að þeir sem þurfa hana t.d. vegna þunglyndis og annarra kvilla í þá veru fara frekar til geðlækna en til sálfræðinga vegna þess að geðlæknisþjónustan er greidd niður. Og þar eru úrræðin frekar að gefa lyf en sálfræðingarnir vinna fólk frekar út úr vandanum. Og ég bendi hæstv. ráðherra á að skoða þetta dæmi, því ég tel að þarna sé leið sem við gætum farið sem væri öllum til hagsbóta, bæði skattgreiðendum og sjúklingum.

Umræðan um sjúkrahótelin og 10 milljónirnar --- það er nú ansi langt seilst að ætla að fara að ná inn einhverjum 10 milljónum á sjúkrahótelunum. Við vitum alveg að það er mikið hagræði fyrir heilbrigðisþjónustuna að geta útskrifað sjúklinga úr dýrum rúmum á sjúkrahúsunum inn á sjúkrahótelin. Og þannig eru stjórnvöld að spara háar upphæðir. Það er því ákaflega slappt að þurfa að vera að seilast þarna í vasa sjúklinga, því við vitum alveg að það er mest landsbyggðarfólk sem er fer inn á sjúkrahótelin. Aðrir geta farið heim til sín og komið síðan í göngudeildarþjónustuna.

Mig langar einnig að minnast aðeins á Landspítala -- háskólasjúkrahús og fjárveitingar til þess hátæknisjúkrahúss. Ég er sannfærð um að slíkur niðurskurður, þ.e. að ekki er tekið tillit til þarfa spítalans, mun hafa mjög alvarlegar afleiðingar. Sameiningarferlið, sem er í fullum gangi, mun ekki geta gengið fram, sameiningarferli sem átti að skila hagnaði. Stjórnvöld hafa aldrei viljað viðurkenna að sameiningin kosti peninga. Það er sama sagan fyrir hver fjárlög eftir að ákveðið var að sameina þessi sjúkrahús. Menn hafa haldið að það kostaði ekkert að sameina sjúkrahúsin til að ná síðan fram hagræðingu. Auðvitað kostar þetta peninga og menn verða að gera sér grein fyrir því og setja pening í það til þess að hagnaðurinn skili sér.

Ég vil vísa í grein frá ágætum starfsmanni Landspítalans, Önnu Lilju Gunnarsdóttur, sem var í Morgunblaðinu, ég man ekki hvort það var í dag eða gær, um þetta mál. Ef þetta verður látið standa svona eins og fjárlögin frá ríkisstjórninni líta út, þá verður starfsfólki örugglega sagt upp, ég óttast það. Og skuldahalinn mun lengjast.

Herra forseti. Það er verulegt áhyggjuefni hvernig þessi ríkisstjórn býr að heilbrigðisþjónustunni í landinu og velferðarkerfinu sérstaklega þegar litið er til Landspítalans því þetta er sjúkrahús sem sendir ekkert annað. Hann þarf að taka við öllum tilfellum af landinu sem önnur sjúkrahús geta ekki ráðið við. Þetta sjúkrahús er með dýru aðgerðirnar. Þarna verðum við að standa almennilega að verki. Hvað ef við lendum í stórslysum eða einhverjum alvarlegum áföllum? Og svona er búið að eina stóra hátæknisjúkrahúsinu okkar.

Nei, herra forseti, þetta gengur ekki. Ég heiti á hæstv. ráðherra að sjá til þess að breyting verði á áður en við afgreiðum þetta mál á morgun. Ég veit að hæstv. ráðherra veit alveg hvað þessar fjárveitingar fela í sér.

En ég furða mig á því eins og ég hef gert áður hér í andsvörum í dag, að þingmenn og hæstv. ráðherrar Framsfl. skuli sætta sig við að það eigi að fara að hækka sérfræðiþjónustu eins og ferliverkin. Ég veit ekki betur en þeir hafi barist fyrir því að setja þetta 5 þús. kr. þak og það kom í þeirra tíð í ríkisstjórninni. Og ég skil ekki hvað þeim gengur til að fara að leggja þessar margföldu, mörg hundruð prósent auknar álögur á sjúklinga núna í ferliverka- og sérfræðiþjónustunni.

Herra forseti. Ég fer nú að ljúka máli mínu. En mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra einnar spurningar til viðbótar og hún varðar Heyrnar- og talmeinastöðina. Nokkur umræða hefur verið um hana í fjárlagaumræðunni í dag og það kemur fram að menn eigi að geta fengið sambærilegar greiðslur, þ.e. ef þeir fá heyrnartæki hjá einkaaðilum. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er verið að leggja þarna til að sjúklingar fái niðurgreiðslur hjá einkaaðilum sambærilegar og hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni og síðan verði þeir rukkaðir til viðbótar um það sem umfram er eins og gerist í einkaskólunum?

Ég verð að segja að ég hef ákveðnar efasemdir um þetta allt saman og tel að við þurfum að skoða þetta mun nánar. Við erum með frv. um Heyrnar- og talmeinastöðina í heilbr.- og trn. og þar verður að taka á þeim málum og skoða þetta, því það er ekki viðunandi að menn geti farið að borga sig fram fyrir í þjónustu sem þessari.

Og síðan hefði ég gjarnan viljað vita hvort sú fjárhæð sem ætluð er til hjálpartækja, þ.e. heyrnartækja og annarra hjálpartækja fyrir þá sem eru heyrnarskertir eða heyrnarlausir, eigi að skiptast á milli þessara þjónustuaðila, þ.e. einkaaðilanna og Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar.

Herra forseti. Ýmis gagnrýni hefur komið fram á þessi fjárlög frá ríkisstjórninni. Við jafnaðarmenn höfum gagnrýnt harðlega hvernig niðurskurðurinn bitnar á sjúklingum, hvernig tekjuafgangurinn er greiddur af sjúklingum og námsmönnum, og við munum aldrei sætta okkur við það, aldrei. En ég held að mál sé að linni. Ég held að ég hafi komið flestu að sem ég tel að þurfi að komast að í umræðunni, en ég verð að segja að þessi úttekt BSRB og hagfræðinga þeirra á þróun kostnaðar sjúklinga, sem ég fór yfir fyrr í ræðu minni, er náttúrlega mjög merkilegt innlegg vegna hækkana á sjúklinga.

Herra forseti. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra svari þeim örfáu spurningum sem ég beindi til hans í ræðu minni.