Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 19:31:54 (2749)

2001-12-07 19:31:54# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[19:31]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst um starfsfólk spítalanna. Ég tek eindregið undir það að gott starfsfólk er undirstaðan í hverri sjúkrastofnun. Ég vona satt að segja að þeir kjarasamningar sem gerðir hafa verið núna, og ég fagna, hjálpi til að halda í það góða starfsfólk sem við höfum. Gerðar hafa verið ráðstafanir til þess á fjárlögum að standa undir þeim. Ég vona það svo sannarlega því að það er undirstaðan.

Varðandi Heyrnar- og talmeinastöðina þá höfum við verið með mál hennar til sérstakrar skoðunar. Við höfum verið með löggjöf um hana í endurskoðun sem er til meðferðar í heilbr.- og trn. Við höfum borgað á fjáraukalögum þann uppsafnaða halla frá fyrri árum sem var á Heyrnar- og talmeinastöðinni og lagt fram fjármagn til að stytta biðlista, þó að ég viðurkenni að ég hefði viljað hafa það meira. Við þurfum að taka þessa biðlista í áföngum. Við þurfum að fara vel yfir það og ég vænti samstarfs við heilbr.- og trn. um það hvernig við stöndum að greiðslum og greiðsluþátttöku varðandi annað fyrirtæki sem er komið inn í þetta mál. Ég vona að við getum fundið leið sem mismunar ekki fólki í því. Það er stefna mín að fólk hafi sambærilegan aðgang og að menn borgi sig ekki fram fyrir aðra. Ég hef marglýst því yfir og við verðum að finna leið í því efni. Ég tel að ekki sé hægt að mismuna á þann hátt að menn borgi niður hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni en ekki öðrum. Ég á ekki von á því að við getum tekið þann háttinn upp. Vonandi verður þessi samkeppni til góðs fyrir notendur.