Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 20:17:07 (2753)

2001-12-07 20:17:07# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[20:17]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það stendur í 2. gr. stjórnarskrárinnar engu að síður, með leyfi herra forseta:

,,Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.``

Stjórnarskráin gerir ráð fyrir þrískiptingu valdsins. Hafi það ekki verið framkvæmt þá er kominn tími til, herra forseti. Þó við höfum tekið upp einhverjar reglur frá Dönum og þeir aftur frá Evrópu, utan Frakklands, og að þar sé allt í graut með samskipti framkvæmdarvalds og löggjafarvalds þá segir stjórnarskráin annað og það byggir á ákveðinni heimspeki til þess að vernda borgara.

Ég vildi gjarnan að það yrði skoðað hvort ráðherrar eigi að vera þingmenn. Mér finnst það ekki eðlilegt. Þeir eru beggja megin borðsins, ef við erum að líta þarna á stjórnarskrá Íslands. Þetta er því ekki fullkomlega rökrétt kerfi. Hér á hinu háa Alþingi hefur verið flutt frv. um það að ráðherrar séu ekki þingmenn, víki af þingi þegar þeir gerast ráðherrar. Það var flutt af hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, núv. hæstv. ráðherra (SJóh: Og þingmanni.) og þingmanni. Ég get alveg stutt slíka hugsun.

En varðandi það að ég þekki það úr hv. efh.- og viðskn. að náið samstarf sé við ráðuneytið, þá var það svo náið að ég hætti í nefndinni.