Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 20:20:42 (2756)

2001-12-07 20:20:42# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[20:20]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal gagnrýndi það að nánast engin lög væru samin á Alþingi. Við höfum heyrt hv. þm. gagnrýna þetta aftur og aftur, mánuð eftir mánuð og ár eftir ár, bæði hér á Alþingi og í hinum ýmsu þáttum í sjónvarpi og útvarpi sem hv. þm. er duglegur að mæta í. Þetta er skoðun hans og sannfæring og ég ber virðingu fyrir þessari skoðun þó ég sé ekki endilega alveg sammála túlkun hans.

Mér fannst reyndar hv. þm. örlítið ósamkvæmur sjálfum sér þegar hann fór svo að gagnrýna fjárln. Ég skildi hann þannig að hann væri að gagnrýna fjárln. fyrir að leyfa sér að gera eitthvað án þess að spyrja ráðherrann. Er þá ekki Alþingi að taka frumkvæðið og semja lögin sjálft? Hv. þm. nefndi dæmi af því ef fjárln. tæki sig til og veitti fé í einhvern fúakláf sem væri svo ónýtur að þá væri það Alþingi sem bæri ábyrgð en ekki ráðherrann. Mér fannst þetta svona ekki alveg ganga upp hjá hv. þm.

En hvernig verða lögin til hérna á þingi? Yfirleitt er það nú þannig að þegar til stendur að flytja frumvarp um eitthvert mál þá er sett nefnd í málið. Í nefndina veljast yfirleitt einhverjir menn sem hafa þekkingu á viðkomandi málaflokki. Oftast er hafður með löglærður maður, einn eða tveir, til að passa upp á þá hlið málanna og oft eru í þessum nefndum þingmenn, einn eða tveir þingmenn til að tengja málið við þingið. Síðan þegar frv. er fullskapað og ráðherra leggur það fram þá fer það hér inn í þingnefnd og hv. þm. Pétri Blöndal er náttúrlega kunnugt um að á nánast hverju einasta máli, hverju einasta frv. sem kemur til þingnefndar eru gerðar mjög miklar breytingar, af því að þá koma þingmennirnir að málinu og koma með sinn vinkil á málið og yfirleitt breytast málin mjög mikið í meðferð Alþingis.

Ég held því nú að sú aðferð sem við notum við lagasmíð sé ekki eins galin og hv. þm. vill vera láta. Ég er ekki alveg sammála honum í þessari túlkun.