Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 20:22:51 (2757)

2001-12-07 20:22:51# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[20:22]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Varðandi það að ekki sé rökrétt hjá mér að gagnrýna það að Alþingi setji lög um einn ákveðinn bát eða viðgerð á bát og svo hins vegar það að þurfa að spyrja ráðherra um það, þá er það einmitt það sem ég sé sem verkefni framkvæmdarvaldsins, þ.e. að standa í framkvæmdinni sem slíkri, að gera við bátinn og kanna hvaða báta eigi að gera við. En síðan þurfi þeir að svara fyrir Alþingi um þá framkvæmd þannig að þeir þurfa að svara Alþingi af hverju þeir hafi gert við þennan bát en ekki hinn.

Varðandi það hvernig frv. eru unnin ... (Gripið fram í: Hverju erum við þá nær?) Þá erum við því nær að við stöndum ekki í framkvæmd sjálf og ráðherrann ber ábyrgð á framkvæmdinni. Sá er munurinn. Hann þarf að svara til Alþingis fyrir framkvæmdina, auk þess sem framkvæmdin verður væntanlega miklu betri af því að vanir menn sem vinna í ráðuneytunum standa að málum og þeir þekkja hvernig á að framkvæma. (Gripið fram í.)

Síðan er það spurningin um hvernig frv. eru samin í dag, þ.e. af einhverri nefnd á vegum ráðuneytisins, oft af sérfræðingum. Þetta tel ég vera töluvert hættulegt, herra forseti. Vegna þess hve þjóðfélagið er orðið flókið, t.d. varðandi samkeppnislög, eins og ég nefndi, fjármálastofnanir eða eitthvað slíkt, þ.e. þetta er orðið svo flókið að sá sem semur lögin getur sett inn í þau nánast það sem hann vill. Ég teldi miklu eðlilegra að þingnefndir þingsins réðu þetta sama fólk til sín, sem það hvort sem er borgar, og léti það vinna á vegum þingsins. Erindin kæmu þá frá ráðuneytunum, frá einstaklingum eða samtökum til þingmanna eða þingnefnda um að það þurfi að setja lög um þetta og hitt og síðan semji starfsmenn þingsins þau undir eftirliti þingmanna eða þingnefndarinnar.